Það var á Bindindismótinu í Galtalæk 1986 sem Greifarnir léku lagið Útihátíð í fyrsta sinn um verslunarmannahelgi og meitluðu í tón um eilífð stemninguna þessa fyrstu helgi í ágúst, sem er jafnframt síðasta helgi í sumarleyfi hjá mörgum og stærsta ferða-, útihátíða- og áfengisneysluhelgi ársins hjá öllum, að minnsta kosti að meðaltali. Ég man þetta af því þetta var mín fyrsta og síðasta útihátíð. Síðan hef ég reynt að eyða verslunarmannahelgum, sem og flestum öðrum dögum ársins, í tæri við kranavatn, heitt og kalt, útveggi og kaffivélar og ekki innan um of margt fólk. En það er bara ég og ég fagna þeim sem streymdu út úr bæjum og borgum í gær á hátíðasvæði eða sumarbústaði og vona að þeir skemmti sér vel.