AsíAfríka - Soweto
Soweto er eitt sögufrægasta fátækrahverfi Suður Afríku og þó víðar væri leitað. Hverfið byggðist upp á meðan aðskilnaðarstefna hvíta minnihlutans réð ríkjum í landinu en hún var við lýði mestan part tuttugustu aldarinnar. Uppþotin í Soweto árið 1976 urðu kveikjan að andstöðunni við aðskilnaðarstefnuna sem síðan leið undir lok árið 1991. Heimsókn okkar í hverfið var sérstök upplifun. Við dvöldum þar í tvo daga á hosteli sem heitir Lebo´s Soweto Backpackers. Eigandinn heitir auðvitað Lebo og er mjög afslappaður náungi sem lifir eftir lífsreglum rastafari stefnunnar. Bob Marley, Snoop Lion og allskyns reggí tónlist hljómar hér stöðugt í hátalara kerfinu.