Innlent

Tæp­lega þrjá­tíu prósent Tesla Y þurftu í endur­skoðun

Árni Sæberg og Bjarki Sigurðsson skrifa
Mikið hefur verið flutt inn af Teslum undanfarin ár. Rauða Teslan fyrir miðju er af gerðinni Y.
Mikið hefur verið flutt inn af Teslum undanfarin ár. Rauða Teslan fyrir miðju er af gerðinni Y. Vísir/Vilhelm

Af þeim 711 bifreiðum af gerðinni Tesla Y sem farið var með í aðalskoðun í fyrra stóðust 206 ekki skoðun og fara þurfti með þær í endurskoðun. Það gerir 29 prósent bifreiðanna.

Talsvert hefur verið fjallað um bifreiðar af gerðinni Tesla Y eftir að greint var frá því að samkvæmt gögnum Félags danskra bifreiðaeigenda (FDM) fái nær helmingur fjögurra ára gamalla Tesla Y endurskoðunarmiða strax við fyrstu skoðun.

Björn Kristjánsson, sérfræðingur hjá FÍB, hvatti eigendur slíkra bifreiða til að mynda til þess að fylgjast vel með ástandi bifreiða sinna á dögunum.

„Við erum að heyra svipaðar fréttir frá Noregi þótt það sé ekki búið að birta tölur þaðan. En það er að koma núna reynsla á þessa tegund af bílum og þetta er niðurstaðan. Að um 45 prósent af bifreiðunum fá þá athugasemd í aðalskoðun og sérstaklega er verið að benda á að það sé slit í hjólabúnaði, slit í stýri og bremsur séu ábótavant og að ljósastillingar séu heldur ekki í lagi.“

Sett út á ýmislegt

Samgöngustofa hefur tekið saman gögn fyrir Vísi sem sýna hversu algengt er að bifreiðar af gerðinni Tesla Y þurfi í endurskoðun. Sem áður segir þurftu 206 af 711 slíkum bifreiðum í endurskoðun í fyrra. 

Það sem sett var út á í aðalskoðunum bifreiðanna var eftirfarandi: hemlarör, hjólbarðar, virkni aksturshemils, hjólspyrnur, armar og stífur, festingar öryggisbelta/læsinga, fjaðrabúnaður og jafnvægisstöng, hemlaskálar og hemladiskar, hemlastrokkar og hemladælur, hjólalegur, höggdeyfar og höggdeyfafestingar, ljósker og lýsing aðalljósa, rúður, sjónsvið ökumanns, slökkvitæki, spindilkúla, stilling aðalljósa, framrúðusprautur, gírbúnaður og aflrás út í hjól, raftengi fyrir eftirvagn og sjúkrakassi.

Árið áður þurftu aðeins þrjár slíkar bifreiða í endurskoðun af 69 sem fóru í aðalskoðun. Það gerir fjögur prósent bifreiða. Þá var sett út á hjólbarða, hjólspyrnur, arma og stífur, slökkvitæki og framrúðuþurrkur.

Minni bróðirinn kemur betur út

Vísir falaðist einnig eftir sömu upplýsingum um bifreiðar af gerðinni Tesla 3, sem kalla mætti minni bróður Tesla Y.

Í fyrra fóru 556 slíkar bifreiða í aðalskoðun og 87 þeirra þurfu í endurskoðun. Það gerir tæplega 16 prósent. Þá var sett út á útsýn (rúður, þurrkur og spegla), ljósabúnað (ljós, glit og rafbúnað), hjólbarða, yfirbyggingu (dyr, hjólhlífar, rúður, belti, undirvörn og rými), fjaðrabúnað og jafnvægisstöng, skemmda framrúðu, gírbúnað og aflrás út í hjól, hemlaborða og hemlaklossa, hemlaskálar og hemladiska, hjólalegur, hjólbarða, hjólspyrnur, arma og stífur, lekamengun, öryggispúðakerfi (SRS), rúður, spegla og baksýnisbúnað, spindilkúlu, virkni aksturshemils, framrúðusprautur, hjólastöðu, hjólbarða og ljósker og lýsingu númersljóskera.

Árið áður fóru 805 í aðalskoðun og 75 prósent fengu boðun í endurskoðun. Það gerir um níu prósent. Þá var sett út á útsýn (rúður, þurrkur og spegla), ljósabúnað (ljós, glit og rafbúnað), hjólbarða, yfirbyggingu (dyr, hjólhlífar, rúður, belti, undirvörn og rými), fjaðrabúnað og jafnvægisstöng, skemmda framrúðu, gírbúnað og aflrás út í hjól, hemlaborða og hemlaklossa, hemlaskálar og hemladiska, hjólalegur, hjólbarða, hjólspyrnur, arma og stífur, lekamengun, öryggispúðakerfi (SRS), rúður, spegla og baksýnisbúnað, spindilkúlu, virkni aksturshemils, framrúðusprautur, hjólastöðu, hjólbarða og ljósker og lýsingu númersljóskera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×