Innlent

Spyr hvort að Rúv finnist hún „hund­leiðin­leg t***a“

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. Vísir/Anton Brink

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, gagnrýnir val þáttastjórnanda Vikuloka á Rás 1. Hún hótar að hætta að greiða útvarpsgjaldið svari þau ekki fyrir af hverju henni sé aldrei boðið.

Í færslu á Facebook lýsir Sólveig Anna því hvernig hún hafi verið formaður næst stærsta verkalýðsfélags landsins frá árinu 2018, að undanskildum örfáum mánuðum 2021-22. 

„Ég hef leitt fjölmargar verkfallsaðgerðir og haldið næstum ótal atkvæðagreiðslur um vinnustöðvanir - sem allar hafa verið samþykktar af félagsfólki með yfirgnæfnadi meirihluta greiddra atkvæða. Ég hef oft varist fyrir dómstólum fyrir hönd félagsins og oft stefnt þeim sem stjórn hefur talið rétt að stefna,“ segir Sólveig Anna.

Frá því að hún tók við embætti formanns árið 2018 hafi henni einu sinni verið boðið að koma í útvarpsþáttinn Vikulok sem er á Rás 1.

„Frá því að núverandi formaður VR tók við formennsku fyrir tæpu ári hefur henni verið boðið um það bil 270 sinnum, nú síðast í gær, til að ræðakjarasamninga sem ég gerði en ekki hún. Og nú, á þessari dimmu helgi á glænýju ári, er nóg komið - og ég krefst svara,“ segir Sólveig.

Hún gefur forsvarsmönnum Vikuloka sex valmöguleika til að velja um sem ástæða af hverju henni hafi ekki verið boðið oftar.

„Er mér ekki boðið í Vikulokin afþví A. ég er bara með grunnskólapróf, B. ég er átakasækinn aðgerðasinni, C. ég er ekki vók, D. ég er ekki nógu dömuleg, E. þeim finnst ég hundleiðinleg t***a, F. þeim finnst ég heimskt fífl sem veit ekki neitt, eða G. er ég formaður í félagi verkafólks þar sem meira en heilmingur er af erlendu bergi brotinn en ekki í félagi íslenskrar millistéttar? Eða allt af þessu?“ 

Sólveig Anna krefst þess að fá skýr svör innan tveggja sólarhringa, annars muni hún neita að borga „þetta helvítis útvarpsgjald“ og fer í mál.

„Ég hef sýnt mikið langlundargerð, bælt niður gildi mín og persónuleika vegna þessarar einbeittu og grófu móðgunnar, en ég fæ ei lengur bælt.“

Samkvæmt lauslegri athugun blaðamanns hefur Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, tvisvar sinnum verið gestur í Vikulokum á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×