Sport

Varsjáarvíti í uppbótartíma tryggði Brann stig í Íslendingaslag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Elías Rafn Ólafsson átti flottan leik með Midtjylland í Evrópudeildinni í kvöld.
Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Elías Rafn Ólafsson átti flottan leik með Midtjylland í Evrópudeildinni í kvöld. Getty/Domenico Cippitelli/

Brann tryggði sér jafntefli á móti danska liðinu Midtjylland með dramatískum hætti í kuldanum í Bergen í kvöld.

Leikurinn var fjörugur og frábær skemmtun en endaði með 3-3 jafntefli.

Elías Rafn Ólafsson hafði varið hvað eftir annað í marki Midtjylland en tvö síðustu mörk norska liðsins komu úr vítaspyrnum.

Brann náði þarna í eitt afar dýrmætt stig í baráttunni um sæti í umspilinu. Freyr Alexandersson er þjálfari norska liðsins. Sævar Atli Magnússon og Eggert Aron Guðmundsson gátu ekki spilað með Brann vegna meiðsla.

Brann sótti grimmt í leiknum og fékk vissulega fjölmörg færi til að fá enn meira út úr leiknum. Þeir áttu því skilið að fá jöfnunarmark.

Þeir fengu þó hjálp frá myndbandsdómurum sem tóku eftir hendi í teignum þegar komið var langt inn í uppbótartíma. Dómarinn fór í skjáinn og dæmdi víti. Joachim Soltvedt jafnaði metin úr vítinu.

Brann jafnaði þrisvar leikinn en fékk á sig þriðja markið aðeins tveimur mínútum eftir að þeir jöfnuðu í annað skiptið.

Elías Rafn var mjög flottur í marki Midtjylland og varði átta skot í leiknum, þar af úr mjög góðum færum á lokamínútunum.

Martin Erlic skoraði tvö mörk fyrir Midtjylland, fyrsta mark liðsins á 4. mínútu og þriðja markið á 70. mínútu. Junior Brumado kom danska liðinu í 2-1 á 31. mínútu.

Noah Holm jafnaði metin í 1-1 á 19. mínútu og Emil Kornvig jafnaði í 2-2 á 68. mínútu með marki úr vítaspyrnu.

Midtjylland er í mjög góðri stöðu þrátt fyrir jafnteflið en liðið er í fjórða sæti Evrópudeildarinnar.

Brann byrjaði mjög vel í Evrópudeildinni en hafði gefið eftir og þetta var aðeins þriðja stigið í síðustu fjórum leikjum. Það kemur liðinu upp í 21. sæti en 24 efstu liðin komast í umspilið.

Daniel Tristan Guðjohnsen fékk að spila síðustu sex mínúturnar í 0-1 tapi Malmö á heimavelli á móti Rauðu Stjörnunni. Vasilije Kostov skoraði eina mark leiksins strax á 16. mínútu. Malmö er úr leik fyrir lokaumferðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×