Erlent

Morðingi Abe dæmdur í lífs­tíðar­fangelsi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Morðið á Abe vakti athygli út um allan heim.
Morðið á Abe vakti athygli út um allan heim. Getty/Universal Image Group

Tetsuya Yamagami, maðurinn sem skaut Shinzo Abe, fyrrverandi forsætisráðherra Japan, til bana á fjöldafundi í Nara árið 2022, hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi.

Skotárásin kom mörgum í opna skjöldu, þar sem byssuglæpir eru afar fátíðir í Japan. Yamagami, 45 ára, játaði hins vegar að hafa orðið Abe að bana með heimasmíðuðu skotvopni.

Ákæruvaldið sagði Yamagami verðskulda lífstíðardóm fyrir hinn alvarlega glæp. Verjendur hans sögðu hins vegar að Yamagami væri fórnarlamb „trúarlegrar misnotkunar“.

Trúarákefð móður Yamagami er sögð hafa sett fjölskylduna á hausinn, þar sem hún gaf kirkjunni allar eignir sínar. Þá er Yamagami sagður hafa orðið reiður Abe þegar hann uppgötvaði tengsl forsætisráðherrans fyrrverandi við sama söfnuð og móðir hans tilheyrði.

Yamagami sagði við réttarhöldin að upphaflega hefði hann haft í hyggju að beina reiði sinni gegn leiðtogum kirkjunnar. 

Svokölluð „Sameiningarkirkja“ var svipt stöðu sinni sem trúfélag í fyrra, eftir að dómstóll komst að þeirri niðurstöðu að fylgjendur kirkjunnar hefðu verið narraðir til að veita fjármunum til hennar með hótunum um að trúarleg velferð þeirra væri í húfi.

Þá hafði hún einnig sætt gagnrýni fyrir fjöldabrúðkaup, þar sem fjöldi brúðhjóna var gefinn saman á sama tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×