Fótbolti

Lærir inn á nýtt um­hverfi: „Ég mun gera mörg mis­tök“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Nik segir leikmönnum til á æfingu gærdagsins í Kristianstad.
Nik segir leikmönnum til á æfingu gærdagsins í Kristianstad. Vísir/Sigurður Már

Nik Chamberlain er hægt og rólega að aðlagast nýju umhverfi í Svíþjóð eftir um áratug á Íslandi. Hann tók við Íslendingaliði Kristianstad um áramótin og segist ætla að læra hratt inn á nýtt starf. Hann muni þó gera mistök á leiðinni.

„Það gengur vel. Þetta er friðsæll og góður lítill bær. Síðasta vika hefur auðvitað verið aðeins fjörlegri með komu allra Íslendinganna vegna handboltans. Að öðru leyti hef ég verið að aðlagast hægt og rólega nýju umhverfi,“ segir Nik sem flutti frá Íslandi til Svíþjóðar um áramótin.

Hann segir aðlögunina ganga vel er hann kynnist nýju samstarfsfólki og leikmönnum.

„Liðið hefur tekið vel í hugmyndirnar okkar. Samfélagið í kringum liðið hefur einnig hjálpað mikið til varðandi keyrslu og að hafa upp á húsgögnum og slíkt. Við Sævar (Örn Ingólfsson, styrktarþjálfari Kristianstad) stöndum í þessu saman,“ segir Nik sem er loks að ná að skapa eðlilegt heimilislíf eftir flutninga.

„Ég fékk rúmið mitt loksins á laugardaginn og gengið frá WiFi í gær svo ég get loks farið að lifa eðlilegu lífi og einblínt á lífið. Það var ekkert stórkostlegt að vera á vindsæng með bara einn stól í íbúðinni í viku eða svo. Núna er fullur fókus á liðið og ég hlakka til að boltinn fari að rúlla. Fyrsti æfingaleikurinn er á laugardaginn.“

Hver er helsti munurinn á Breiðabliki og Kristianstad?

„Hraðinn og orkan er aðeins meiri hér. Þetta er skrefi ofar. En ég var nú bara rétt að byrja, þetta hafa verið tvær og hálf vika. En þetta er skrefi ofar,“ segir Chamberlain. En hver eru hans markmið í starfi?

„Ég vil halda áfram að byggja upp fagmannlegheit. Ég hef ekki enn sett markmið um hvað við viljum afreka inni á vellinum varðandi sæti í deild eða slíkt. Úrslitin skila sér og við viljum gera betur eftir því sem líður á tímabilið,“

„Þetta er nýtt fyrir mér, að aðlagast nýrri deild, nýjum leikmönnum og nýjum stað. Ég hef ekki gert það. Þegar ég tók við Þrótti og svo Breiðabliki hafði ég búið þar og spilað um hríð,“

„Ég vona að við getum byggt okkur upp leik fyrir leik. Ég mun gera mörg mistök í ár. En þetta er spurning um að læra af þeim og að þetta ár fari í lærdóm fyrir mig og liðið. Svo keyrum við á þetta af fullum krafti í sumar,“ segir Nik að endingu.

Viðtalið má sjá í spilaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×