Erlent

Fyrr­verandi for­seti dæmdur í fimm ára fangelsi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Yoon Suk Yeol, fyrrverandi forseti Suður-Kóreu gæti átt enn frekari refsingu yfir höfði sér.  
Yoon Suk Yeol, fyrrverandi forseti Suður-Kóreu gæti átt enn frekari refsingu yfir höfði sér.   EPA/JEON HEON-KYUN

Yoon Suk Yeol, fyrrverandi forseti Suður-Kóreu, hefur verið dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir misnotkun valds, hindrun framgangs réttvísinnar og fyrir skjalafals í tengslum við misheppnaða tilraun hans til að setja á herlög í landinu árið 2024. Um er að ræða fyrstu dómsuppkvaðninguna yfir forsetanum fyrrverandi, en hann gæti átt yfir höfði sér enn frekari refsingu, jafnvel dauðarefsingu, þar sem enn á eftir að kveða upp úrskurði í þremur málum til viðbótar sem tengjast embættisfærslum forsetans.

Þótt herlögin hafi aðeins gilt í skamman tíma áður en forsetinn var hrakinn til baka með ákvörðun sína, þá leiddi málið til verulegs umróts og mótmæla í landinu og þingmenn réðust í framhaldinu hratt í það verk að snúa við ákvörðun Yoon. 

Málið leiddi til pólitískrar krísu í landinu en samkvæmt umfjöllun BBC um málið í dag, gæti þessi fyrsti úrskurður gefið vísbendingu um hvað koma skal í áframhaldandi réttarhöldum yfir forsetanum fyrrverandi.

Hann sætir ákæru fyrir ýmis brot, meðal annars misbeitingu valds og brot á kosningalögum. 

Alvarlegasta meinta brotið sem hann er ákærður fyrir er insurrection, en saksóknarar hafa farið fram á dauðarefsingu yfir Yoon sökum þessa. Þess er vænst að niðurstaða í því máli muni liggja fyrir í febrúar.

Stuðningsmenn Yoon söfnuðust saman fyrir utan dómshúsið. EPA/JEON HEON-KYUN

Hópur um hundrað stuðningsmanna Yoon hafði safnast saman við dómshúsið í dag til að fylgjast með framvindunni í dómssal í beinni útsendingu á stórum skjá fyrir utan. Einhverjir þeirra flögguðu rauðum mótmælaborðum sem á stóð „Yoon aftur! Gerum Kóreu frábæra á ný.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×