Viðskipti innlent

Hulda til Basalt arki­tekta

Atli Ísleifsson skrifar
Hulda Hallgrímsdóttir.
Hulda Hallgrímsdóttir.

Basalt arkitektar hafa ráðið Huldu Hallgrímsdóttur í nýja stöðu stefnu- og viðskiptaþróunarstjóra.

Í tilkynningu segir að með ráðningunni sé stigið markvisst skref í áframhaldandi uppbyggingu stofunnar og alþjóðlega sókn hennar.

Basalt arkitektar voru stofnaðir árið 2009 og hafa fest sig í sessi sem ein af fremstu arkitektastofum landsins. Stofan er þekkt fyrir metnaðarfulla og heildstæða nálgun í arkitektúr þar sem samspil manns, umhverfis og staðar er í forgrunni. Á undanförnum árum hefur Basalt komið að fjölmörgum umfangsmiklum verkefnum, þar á meðal Bláa Lóninu, Silica Hóteli, GeoSea, Lava Centre, Vök Baths og Skógarböðunum, og hlotið bæði innlendar og alþjóðlegar viðurkenningar fyrir störf sín. Hjá Basalt starfa 25 manns og eigendur fyrirtækisins eru fjórir starfandi arkitektar.

Hulda kemur til Basalt með víðtæka reynslu á sviði stefnumótunar, viðskiptaþróunar og samskipta, bæði úr opinbera geiranum og alþjóðlegu umhverfi. Hún kemur úr Ráðhúsi Reykjavíkur, þar sem hún starfaði sem teymisstjóri á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og sinnti þar stefnumótun, atvinnu- og borgarþróun í nánu samstarfi við stjórnendur borgarinnar og fjölbreytta hagaðila.

Þar áður starfaði Hulda við viðskiptaþróun og samskipti hjá Bjarke Ingels Group (BIG) og arkitektastofunni Third Nature, auk þess sem hún hefur starfað hjá Dansk Arkitektur Center við miðlun og kynningu arkitektúrs. Hún býr því yfir yfirgripsmikilli reynslu af því að starfa á mörkum arkitektúrs, stefnumótunar, stjórnsýslu og alþjóðlegra samskipta.

Hulda er menntuð í stjórnun skapandi fyrirtækja og markaðs- og viðskiptasamskiptum frá Copenhagen Business School og hefur sterkan skilning á því hvernig skapandi fyrirtæki byggja upp sjálfbæra starfsemi, skýra stefnu og sterka ímynd til langs tíma,“ segir í tilkynningunni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×