Enski boltinn

Í bann fyrir „gróft brot“ á kyn­færum tveggja mót­herja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ollie Clarke var sakaður um ljót brot en félagið hans telur að brot hans hafi ekki verið sönnuð. Hann endaði samt í sjö leikja banni.
Ollie Clarke var sakaður um ljót brot en félagið hans telur að brot hans hafi ekki verið sönnuð. Hann endaði samt í sjö leikja banni. Getty/MI News

Ollie Clarke, fyrirliði Swindon Town, var dæmdur í sjö leikja bann eftir að hafa gerst sekur um „mjög grófa og vísvitandi óíþróttamannslega framkomu“ gagnvart „kynfærum“ tveggja mótherja í leik, samkvæmt skýrslu aganefndar.

Þessi 33 ára gamli miðjumaður var einnig sektaður um 2.750 pund í síðasta mánuði eftir að hafa játað tvær kærur enska knattspyrnusambandsins fyrir óviðeigandi eða ósæmilega hegðun gagnvart mótherja. Það jafngildir meira en 467 þúsund íslenskum krónum.

Atvikin áttu sér stað á 57. og 94. mínútu í tapi Swindon gegn Cardiff City í Carabao-bikarnum þann 12. ágúst síðastliðinn.

Átti erfitt með að tala

Í skriflegum rökstuðningi fyrir banninu, sem birtur var á mánudag, sagði óháð aganefnd enska knattspyrnusambandsins að brot Clarke væru alvarlegri þar sem atvikin tvö áttu sér stað með 37 mínútna millibili í sama leik.

Leikmaður sem tilkynnti annað atvikið til dómarans eftir leik „var sýnilega í uppnámi“, „mjög tilfinningaþrunginn og átti erfitt með að tala“, sagði í skýrslunni.

Í skýrslunni voru samt ekki gefnar nákvæmar upplýsingar um hvað Clarke gerði.

Sagði þetta óviljandi

Í yfirlýsingu sem Swindon sendi frá sér eftir birtingu skriflega rökstuðningsins sagði félagið að Clarke héldi fram sakleysi sínu og hefði aðeins játað á sig kærurnar á þeim forsendum að bæði atvikin hefðu verið óviljandi.

„Félagið heldur áfram að styðja Ollie og mun gera það áfram,“ bætti Swindon við.

Nefndin sagðist hins vegar ekki taka undir þá skoðun Clarke að hvorugt atvikið hefði verið viljandi og sagði að „engin trúverðug skýring væri á því að snerta kynfæri mótherja í leik, sérstaklega þegar leikurinn sjálfur var ekki í gangi“.

Töldu þetta ekki sannað

Eftir að bannið var lagt á í síðasta mánuði sagði Swindon að þeir teldu ákvörðunina ekki uppfylla kröfuna um sönnun hafnar yfir allan vafa og hafi þess í stað byggst á líkindamati.

Clarke lék síðast fyrir Swindon þann 13. desember og á enn eftir að afplána þrjá leiki af banni sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×