Innlent

Þetta skýrir mögnuðu norður­ljósin

Eiður Þór Árnason og Smári Jökull Jónsson skrifa
Sævar Helgi Bragason vísindamiðlari segir virknina aftur aukast um næstu helgi.
Sævar Helgi Bragason vísindamiðlari segir virknina aftur aukast um næstu helgi. Sýn

Norðurljós hafa skreytt himininn síðustu kvöld svo eftir hefur verið tekið. Litrík og kvik norðurljósin hafa lokkað landann út í náttúruna líkt og mátti sjá á samfélagsmiðlum enda ansi magnað sjónarspil.

Sævar Helgi Bragason vísindamiðlari segir ástæðuna fyrir því að norðurljósin hafi verið óvenju lífleg vera þríþætta.

„Í fyrsta lagi var rosalega bjart og gott veður þannig að margir sáu en líka vegna þess að það hafði orka hlaðist upp í segulsviðinu okkar sem losnaði úr læðingi þegar það kom kórónugos og skall á jörðinni. Það gerist akkúrat á heppilegum tíma og þess vegna urðu þau svona glæsileg. Það var mikil orka sem losnaði úr læðingi.“

Klippa: Norðurljós hafa skreytt himininn síðustu kvöld

Hann segir að sér líði alltaf vel þegar hann sjái norðurljós á himni. Hann hafi vissulega séð þau enn glæsilegri en þau hafi engu að síður verið óskaplega falleg síðustu daga. Það sé gleðiefni að sem flestir hafi orðið vitni að sýningunni.

Virknin taki hlé og aukist svo aftur

Margir hafa talað um að norðurljósin hafi verið sérstaklega litrík. Sævar segir litarýrðina oft meiri þegar orkan er mikil.

„Þegar orkan er há og mikil þá eru meiri líkur á því að það verði falleg litadýrð líka. Þar komum við að því sem heitir norðurljósahviður og það er yfirleitt stundum það sem við þurfum að bíða eftir en þá myndast litirnir fyrst og þá verða þau björt og falleg.“

Norðurljósavirknin er núna aðeins að fjara út að sögn Sævars og má reikna með því að það komi hlé á morgun. Eftir það eigi virknin að aukast aftur um og upp úr næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×