Þrátt fyrir talsvert innflæði á síðustu mánuðum ársins þá reyndist samanlögð hrein fjárfesting erlendra sjóða í ríkisskuldabréfum aðeins um þriðjungur af því sem hún var árið áður.
Hrein kaup erlendra sjóða í óverðtryggðum ríkisskuldabréfum nam tæplega 5,9 milljörðum króna í desember, að því er lesa má út úr nýjum tölum frá Lánamálum ríkisins, en til viðbótar losuðu þeir um eign sína í ríkisvíxlum fyrir 100 milljónir. Skuldabréfafjárfestarnir keyptu mest í stuttum bréfum, einkum flokknum sem er á gjalddaga 2028, eða fyrir fjóra milljarða. Þá bættu þeir einnig við sig í skuldabréfaflokknum RB38 fyrir samtals einn milljarð.
Á sama tíma og erlendir sjóðir voru að bæta nokkuð við stöðu sína í ríkisbréfum þá minnkuðu bankar og verðbréfasjóðir við sig í þeim bréfum fyrir rúmlega fimm milljarða. Þá nam hrein sala fyrirtækja í ríkisbréfum samtals um 1,5 milljarður.
Mikill meðbyr var á skuldabréfamarkað í haust, einkum upp úr miðjum októbermánuði, og ávöxtunarkrafa fór lækkandi – en þegar hún lækkar þá hækkar verð bréfanna, og svo öfugt. Þar munaði mestu um versnandi hagvaxtarhorfur vegna áfalla hjá stórum útflutningsfyrirtækjum og óvissu á fasteignalánamarkaði eftir dóm Hæstaréttar í Vaxtamálinu svonefnda. Á undanförnum vikum hefur krafa óverðtryggðra ríkisbréfa hins vegar hækkað á nýjan leik samhliða því að fjárfestar fóru að endurmeta væntingar sínar til frekari vaxtalækkana eftir að verðbólgan hækkaði skarpt í desember.
Nokkrar sveiflur voru á liðnu ári þegar kom að viðskiptum erlendra sjóða á ríkisskuldabréfum. Eftir talsvert innstreymi erlends fjármagns í íslensk ríkisverðbréf á árinu 2024 og í upphafi síðasta árs fór að hægja nokkuð á því – en það tók síðan aftur við sér um haustið. Á síðustu tveimur mánuðum ársins var hreint innflæði í óverðtryggð ríkisbréf um þrettán milljarðar – og það skilaði sér í því að fyrir árið í heild sinni var það tæplega fimmtán milljarðar.
Allt árið 2024 var hreint innflæði vegna kaupa erlendra fjárfesta hins vegar samanlagt um 45 milljarðar – það litaðist meðal annars af nítján milljarða kaupum þeirra við útgáfu á nýjum flokki í febrúar – og því dróst það saman um liðlega 30 milljarðar á síðasta ári.
Í lok desember áttu erlendir sjóðir ríkisverðbréf fyrir um 107 milljarða að nafnvirði eða sem nemur nálægt sjö prósentum af slíkum bréfum útgefnum í krónum. Vægi eignarhlutar erlendra fjárfesta í innlendum ríkisverðbréfum er afar lágt í sögulegum og erlendum samanburði.

