Fótbolti

Katarar vilja halda fyrsta HM fé­lags­liða hjá konunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lusail leikvangurinn í Katar þar sem úrslitaleikur HM karla fór fram í desember 2022.
Lusail leikvangurinn í Katar þar sem úrslitaleikur HM karla fór fram í desember 2022. getty/Adam Nurkiewicz

Svo gæti farið að fyrsta heimsmeistaramót félagsliða kvenna í fótbolta verði leikið í Katar.

Í síðasta mánuði tilkynnti FIFA að HM félagsliða kvenna myndi fara fram 5.-30. janúar 2028. Ekki var þó greint frá því hvar mótið yrði haldið eða hvort einhvers konar umsóknarferli færi í gang.

The Guardian segir frá því að Katar hafi lýst yfir áhuga á að halda HM félagsliða og eigi í viðræðum við FIFA um það.

Katarar hafa haldið fjölmörg íþróttamót á undanförnum árum, þar á meðal HM karla fyrir fjórum árum. Katar vildi einnig halda HM félagsliða karla 2029 en líklega fer mótið fram á Spáni eða í Marokkó sem halda HM landsliða 2030.

Það er talið vinna með Katar að í landinu séu tilbúnir leikvangir og hlýtt loftslag á þeim árstíma þar sem HM fer fram.

Sextán lið munu taka þátt á fyrsta HM félagsliða í kvennaflokki, þar af allavega fimm frá Evrópu. Mótið á að fara fram á fjögurra ára fresti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×