Uppgjörið: Frakkland - Ísland 31-29 | Jákvæð teikn þrátt fyrir tap Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 11. janúar 2026 18:00 Ómar Ingi Magnússon var markahæstur Íslendinga gegn Frökkum ásamt Óðni Þór Ríkharðssyni. Þeir skoruðu báðir fimm mörk. vísir/Anton Íslenska karlalandsliðið í handbolta tapaði fyrir því franska, 31-29, í síðasta leik sínum fyrir Evrópumótið. Frakkar tryggðu sér sigurinn með því að skora tvö síðustu mörk leiksins. Ísland spilaði stórvel í fyrri hálfleik og leiddi með tveimur mörkum að honum loknum, 14-16. Frönsku Evrópumeistararnir voru sterkari framan af seinni hálfleik en Íslendingar héldu alltaf áfram og komu sér í stöðu til að ná allavega jafntefli. Frammistaðan var heilt yfir góð og teiknin fyrir EM eru jákvæð. Björgvin Páll Gústavsson varði vel í markinu og Gísli Þorgeir Kristjánsson lék aftur frábærlega, eins og gegn Slóveníu á föstudaginn. Óðinn Þór Ríkharðsson og Ómar Ingi Magnússon skoruðu fimm mörk hvor fyrir Ísland og Bjarki Már Elísson, Elvar Örn Jónsson og Orri Freyr Þorkelsson gerðu allir fjögur mörk. Aymeric Minne skoraði átta mörk fyrir Frakka og markvörðurinn Remi Desbonnet reyndist Íslendingum afar erfiður ljár í þúfu fyrri hluta seinni hálfleiks. Íslendingar byrjuðu leikinn vel og komust fjórum mörkum yfir, 2-6, eftir að hafa skorað fimm mörk í röð. Björgvin var vel með á nótunum í markinu og varði þrjú af sex skotum sínum í fyrri hálfleik á fyrstu sex mínútum leiksins. Gísli stýrði sóknarleiknum af miklu öryggi. Ómar Ingi og Haukur Þrastarson létu lítið fyrir sér fara sitt hvorum megin við hann en Janus Daði Smárason átti góða innkomu um miðjan fyrri hálfleik í sínum hundraðasta landsleik. Íslenska liðið tók sér góðan tíma í sókninni, sýndi skynsemi og var með góða skotnýtingu í fyrri hálfleik (73 prósent). Frakkar fengu svo til enga markvörslu í fyrri hálfleik en voru aldrei langt undan. Franska vörnin efldist eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og Benoit Kounkoud minnkaði muninn í eitt mark, 13-14, þegar þrjár mínútur voru til hálfleiks. Hann var reyndar lentur þegar hann skoraði en portúgalskir dómarar leiksins létu það óátalið. Ísland skoraði næstu tvö mörk en Dika Mem gerði síðasta mark fyrri hálfleiks, 14-16, og undir lok hans var Elvar rekinn af velli í annað sinn. Íslendingar voru afar ósáttir við dómgæslu Portúgalanna á þessum kafla og fannst þeir draga taum Frakka full mikið. Frakkar skoruðu fyrstu tvö mörk seinni hálfleiks og komust yfir í fyrsta sinn síðan í stöðunni 2-1 þegar Ludovic Fábregas skoraði átjánda mark þeirra. Eftir að hafa nýtt færin sín afar vel í fyrri hálfleik varði Desbonnet allt hvað af tók framan af þeim seinni. Til að bæta gráu ofan á svart tapaði Janus Daði boltanum þrívegis í byrjun seinni hálfleiks og fyrir utan eina glæsilega línusendingu á Arnar Frey Arnarsson átti Viggó Kristjánsson einnig slaka innkomu. Franska liðið gekk á lagið en náði þó aldrei meira en tveggja marka forskoti og leikur íslenska liðsins lagaðist mikið eftir að Ómar Ingi kom aftur inn á. Íslendingar náðu að stöðva blæðinguna en Frakkar voru áfram með forystuna. Minne kom Frakklandi í 29-27 en Ómar Ingi og Elvar jöfnuðu í 29-29. Íslendingar voru þarna manni fleiri og Ýmir Örn Gíslason vann boltann í vörninni. Hann tapaði honum hins vegar strax aftur og Minne kom Frökkum yfir, 30-29. Í næstu sókn var Fábregas rekinn af velli og Frakkar því aðeins fjórir eftir í vörninni. Elliði Snær Viðarsson fékk dauðafæri á línunni en hitti ekki markið og Dylan Nahi kláraði svo leikinn, 31-29. Eins og gegn Slóveníu spilaði Ísland frábærlega í fyrri hálfleik en gaf eftir í upphafi þess seinni. Það fær þó prik í kladdann fyrir að brotna ekki undan frönsku ágjöfinni og hefði með meiri skynsemi getað fengið eitthvað út úr leiknum. Hraðaupphlaupin voru beitt í fyrri hálfleik en hurfu í þeim seinni og færanýtingin datt of mikið niður. Átta tapaðir boltar í seinni hálfleik er svo alltof mikið og frammistaða Viggós, Janusar og Hauks voru vonbrigði. Þeir geta miklu betur en þeir sýndu í dag. Það var þó góður bragur á íslenska liðinu í leikjunum tveimur í París og jákvæðu punktarnir mun fleiri en þeir neikvæðu sem veit á gott fyrir Evrópumótið sem hefst á fimmtudaginn. Fyrsti leikur Íslands á því er gegn Ítalíu á föstudaginn. Landslið karla í handbolta EM karla í handbolta 2026
Íslenska karlalandsliðið í handbolta tapaði fyrir því franska, 31-29, í síðasta leik sínum fyrir Evrópumótið. Frakkar tryggðu sér sigurinn með því að skora tvö síðustu mörk leiksins. Ísland spilaði stórvel í fyrri hálfleik og leiddi með tveimur mörkum að honum loknum, 14-16. Frönsku Evrópumeistararnir voru sterkari framan af seinni hálfleik en Íslendingar héldu alltaf áfram og komu sér í stöðu til að ná allavega jafntefli. Frammistaðan var heilt yfir góð og teiknin fyrir EM eru jákvæð. Björgvin Páll Gústavsson varði vel í markinu og Gísli Þorgeir Kristjánsson lék aftur frábærlega, eins og gegn Slóveníu á föstudaginn. Óðinn Þór Ríkharðsson og Ómar Ingi Magnússon skoruðu fimm mörk hvor fyrir Ísland og Bjarki Már Elísson, Elvar Örn Jónsson og Orri Freyr Þorkelsson gerðu allir fjögur mörk. Aymeric Minne skoraði átta mörk fyrir Frakka og markvörðurinn Remi Desbonnet reyndist Íslendingum afar erfiður ljár í þúfu fyrri hluta seinni hálfleiks. Íslendingar byrjuðu leikinn vel og komust fjórum mörkum yfir, 2-6, eftir að hafa skorað fimm mörk í röð. Björgvin var vel með á nótunum í markinu og varði þrjú af sex skotum sínum í fyrri hálfleik á fyrstu sex mínútum leiksins. Gísli stýrði sóknarleiknum af miklu öryggi. Ómar Ingi og Haukur Þrastarson létu lítið fyrir sér fara sitt hvorum megin við hann en Janus Daði Smárason átti góða innkomu um miðjan fyrri hálfleik í sínum hundraðasta landsleik. Íslenska liðið tók sér góðan tíma í sókninni, sýndi skynsemi og var með góða skotnýtingu í fyrri hálfleik (73 prósent). Frakkar fengu svo til enga markvörslu í fyrri hálfleik en voru aldrei langt undan. Franska vörnin efldist eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og Benoit Kounkoud minnkaði muninn í eitt mark, 13-14, þegar þrjár mínútur voru til hálfleiks. Hann var reyndar lentur þegar hann skoraði en portúgalskir dómarar leiksins létu það óátalið. Ísland skoraði næstu tvö mörk en Dika Mem gerði síðasta mark fyrri hálfleiks, 14-16, og undir lok hans var Elvar rekinn af velli í annað sinn. Íslendingar voru afar ósáttir við dómgæslu Portúgalanna á þessum kafla og fannst þeir draga taum Frakka full mikið. Frakkar skoruðu fyrstu tvö mörk seinni hálfleiks og komust yfir í fyrsta sinn síðan í stöðunni 2-1 þegar Ludovic Fábregas skoraði átjánda mark þeirra. Eftir að hafa nýtt færin sín afar vel í fyrri hálfleik varði Desbonnet allt hvað af tók framan af þeim seinni. Til að bæta gráu ofan á svart tapaði Janus Daði boltanum þrívegis í byrjun seinni hálfleiks og fyrir utan eina glæsilega línusendingu á Arnar Frey Arnarsson átti Viggó Kristjánsson einnig slaka innkomu. Franska liðið gekk á lagið en náði þó aldrei meira en tveggja marka forskoti og leikur íslenska liðsins lagaðist mikið eftir að Ómar Ingi kom aftur inn á. Íslendingar náðu að stöðva blæðinguna en Frakkar voru áfram með forystuna. Minne kom Frakklandi í 29-27 en Ómar Ingi og Elvar jöfnuðu í 29-29. Íslendingar voru þarna manni fleiri og Ýmir Örn Gíslason vann boltann í vörninni. Hann tapaði honum hins vegar strax aftur og Minne kom Frökkum yfir, 30-29. Í næstu sókn var Fábregas rekinn af velli og Frakkar því aðeins fjórir eftir í vörninni. Elliði Snær Viðarsson fékk dauðafæri á línunni en hitti ekki markið og Dylan Nahi kláraði svo leikinn, 31-29. Eins og gegn Slóveníu spilaði Ísland frábærlega í fyrri hálfleik en gaf eftir í upphafi þess seinni. Það fær þó prik í kladdann fyrir að brotna ekki undan frönsku ágjöfinni og hefði með meiri skynsemi getað fengið eitthvað út úr leiknum. Hraðaupphlaupin voru beitt í fyrri hálfleik en hurfu í þeim seinni og færanýtingin datt of mikið niður. Átta tapaðir boltar í seinni hálfleik er svo alltof mikið og frammistaða Viggós, Janusar og Hauks voru vonbrigði. Þeir geta miklu betur en þeir sýndu í dag. Það var þó góður bragur á íslenska liðinu í leikjunum tveimur í París og jákvæðu punktarnir mun fleiri en þeir neikvæðu sem veit á gott fyrir Evrópumótið sem hefst á fimmtudaginn. Fyrsti leikur Íslands á því er gegn Ítalíu á föstudaginn.