Fótbolti

PSG bætti við titli eftir vító og hádramatík

Sindri Sverrisson skrifar
Það var mikil spenna í Kúvæt í kvöld þegar PSG og Marseille mættust.
Það var mikil spenna í Kúvæt í kvöld þegar PSG og Marseille mættust. Getty/Jaber Abdulkhaleq

Marseille var hársbreidd frá því að leggja meistaralið PSG að velli í Kúvæt í kvöld, í franska ofurbikarnum í fótbolta, en tapaði að lokum í vítaspyrnukeppni.

Ousmane Dembele kom PSG yfir á 13. mínútu en Mason Greenwood krækti í vítaspyrnu þegar korter var eftir og skoraði af öryggi úr henni, til að jafna metin. 

Marseille virtist svo vera að tryggja sér sigur þegar Willian Pacho setti fótinn í fyrirgjöf og skoraði óvart sjálfsmark, á 87. mínútu. 

Komið var fram á fimmtu mínútu uppbótartíma þegar Goncalo Ramos kom PSG til bjargar og jafnaði metin, og knúði um leið fram vítaspyrnukeppni.

Leikmenn PSG eru orðnir þaulvanir því að landa titlum, eftir að hafa unnið Meistaradeild Evrópu, frönsku deildina og franska bikarinn á síðustu leiktíð, og þeir voru öryggið uppmálað í vítaspyrnukeppninni.

Ramos, Vitinha, Nuno Mendes og Desire Doue skoruðu úr fyrstu fjórum vítum PSG á meðan að Lucas Chevalier varði spyrnur Matthew O'Riley og Hamad Junior Traoré, svo PSG vann 4-1 í vítaspyrnukeppninni.

Marseille spilaði leikinn í kvöld eftir að hafa náð 2. sæti í frönsku deildinni á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×