Enski boltinn

Tæki­færi fyrir Fann­eyju eftir að Häcken lánaði mark­vörðinn til Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fanney Inga Birkisdóttir ætti að fá tækifæri til að sýna sig og sanna í upphafi tímabilsins.
Fanney Inga Birkisdóttir ætti að fá tækifæri til að sýna sig og sanna í upphafi tímabilsins. Getty/Pat Elmont

Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Fanney Inga Birkisdóttir ætti að fá fleiri tækifæri hjá Häcken á komandi tímabili eftir að sænska félagið lánaði aðalmarkvörð sinn til Liverpool.

Jennifer Falk spilaði 23 af 26 leikjum Häcken á síðustu leiktíð en nú fer hún á láni til Bítlaborgarinnar fram á sumar.

„Það hefur verið draumur að spila í þessari deild,“ sagði Jennifer Falk á heimasíðu Häcken. Auk þess að verja mark Häcken þá er hún markvörður sænska landsliðsins.

Häcken tilkynnir þar að hin 32 ára gamla Jennifer Falk framlengi um leið samning sinn við sænsku meistarana til og með 2028.

„Að framlengja við BK Häcken og geta um leið farið á lán til Liverpool og reynt fyrir mér erlendis er fullkomin lausn fyrir mig,“ sagði Falk á heimasíðu Häcken.

Á heimasíðu Liverpool segir sænski landsliðsmarkvörðurinn eftirfarandi:

„Ég er mjög glöð og spennt. Það hefur verið draumur að spila í þessari deild og þetta er stórt félag,“ sagði Falk.

Sænska deildin byrjar í mars og Häcken mun væntanlega treysta á Fanneyju Ingu framan af tímabili og vonandi tekst henni þá að nýta tækifærið.

Fanney spilaði fjóra leiki á síðasta tímabili þar sem Häcken varð sænskur meistari. Hún hélt þrisvar sinnum marki sínu hreinu, eða í 75 prósent leikja, og fékk líka aðeins á sig eitt mark.

Falk fékk á sig sextán mörk í sínum 23 leikjum og hélt markinu hreinu í þrettán leikjum eða 56 prósent leikja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×