Fótbolti

Læri­sveinn Heimis að finna taktinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ferguson fagnar ásamt Stephan El Sharaawy í kvöld.
Ferguson fagnar ásamt Stephan El Sharaawy í kvöld. Maurizio Lagana/Getty Images

Evan Ferguson virðist loks vera að finna fjölina í ítölsku höfuðborginni. Hann skoraði í 2-0 sigri Roma á Þóri Jóhanni Helgasyni og félögum í Lecce í kvöld.

Ferguson er á láni hjá Roma frá Brighton á Englandi en hann hefur ekki átt sjö dagana sæla í Rómarborg. Hann hafði aðeins skorað tvö deildarmörk fyrir leik kvöldsins.

Hann er af mörgum talin vonarstjarna Íra, en hefur dalað eftir frábæra spilamennsku með Brighton í ensku úrvalsdeildinni fyrir tveimur árum.

Mikil umræða hefur skapast um það hvort Brighton hyggist hreinlega kalla hann heim í janúar en stjórnarmenn hjá Brighton gáfu lítið fyrir slíkt í vikunni.

Annað marka Ferguson kom í þarsíðasta leik, í 3-1 sigri á Genoa, en Roma tapaði 1-0 fyrir Atalanta um helgina í kjölfarið.

Roma spilaði í búningi í írsku fánalitunum er liðið heimsótti Lecce í kvöld og írska framherjanum virtist líða vel.

Ferguson skoraði er hann kom Roma yfir eftir stoðsendingu frá Paulo Dybala. Úkraínski framherjinn Artem Dovbyk skoraði svo seinna mark Roma á 71. mínútu.

2-0 sigur Roma staðreynd og Ferguson kominn með tvö mörk í síðustu þremur eftir að hafa skorað aðeins eitt í tólf leikjum þar á undan.

Þórir Jóhann kom inn á sem varamaður í stöðunni 2-0, á 75. mínútu, og spilaði síðasta stundarfjórðunginn á miðsvæði Lecce.

Roma er eftir sigurinn með 36 stig í fjórða sæti, þremur frá toppliði Inter, tveimur frá AC Milan og einu á eftir Napoli í því þriðja. Öll þrjú liðin fyrir ofan Roma hafa hins vegar spilað tveimur leikjum færra en höfuðborgararnir.

Lecce er með 17 stig í 16. sæti, fimm stigum fyrir ofan fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×