Innlent

Enn kvikusöfnun og land­ris og líkur á eld­gosi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Myndin er tekin í eldgosi sem hófst 1. apríl í fyrra.
Myndin er tekin í eldgosi sem hófst 1. apríl í fyrra. Vísir/Anton Brink

Enn er landris og kvikusöfnun við Svartsengi og því enn líkur á kvikuhlaupi sem gæti endað með eldgosi. Kvikusöfnun er enn nokkuð hæg og því töluverð óvissa um tímasetningu. 

Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að fundað verði um stöðuna á morgun og hættumatið endurmetið. Í tilkynningu frá Veðurstofunni á Þorláksmessu, 23. desember, kom fram að kvikusöfnun væri hæg en stöðug, eins og vikurnar á undan.

Jóhanna Malen segir að það sama gildi í dag og þá og að á meðan kvikusöfnunin er enn til staðar séu auknar líkur á kvikuhlaupi og eldgosi. Enn sé þó töluverð óvissa um tímasetningu vegna þess hve hæg kvikusöfnunin er.

„Af því að kvikusöfnunin er svo hæg er svo stórt tímabil sem þetta getur verið hætta á kvikuhlaupi. Það hefði getað gerst um hátíðarnar, á morgun eða í mars,“ segir hún og að það sé erfitt að spá frekar um framhaldið en það.

Það hafi verið lítil skjálftavirkni og staðan í raun sú sama og fyrir jól.

„Svo lengi sem það er áframhaldandi kvikusöfnun, heldur þrýstingur áfram að aukast og þá eru líkindi til þess að það endi með kvikuhlaupi, hvort það endar með eldgosi eða ekki er ekki hægt að segja.“

Hún segir einnig möguleika á að kvikusöfnunin hætti en það geti skapað frekari óvissu. Svo lengi sem það sé landris séu líkur á kvikuhlaupi.


Tengdar fréttir

Ekki talinn tengjast aukinni eldvirkni

Jaðrskjálfti af stærð 3,1 varð við Kleifarvatn laust fyrir klukkan tvö í nótt. Veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir skjálftann ekki tengjast auknum líkum á eldvirkni.

Áfram auknar líkur á eldgosi

Kvikusöfnun undir Svartsengi er hæg en stöðug, líkt og hún hefur verið síðustu vikurnar. Í tilkynningu frá Veðurstofunni kemur fram að á meðan kvikusöfnun haldi áfram þurfi að reikna með nýju eldgosi, , en óvissa um tímasetningu á næsta eldgosi er meiri þegar kvikusöfnun er hæg. Hættumat helst óbreytt til 6. janúar, nema breytingar verði á virkninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×