Enski boltinn

Goð­sögn fallin frá

Valur Páll Eiríksson skrifar
Robertson (t.v) ásamt góðvini sínum og samstarfsmanni Martin O'Neill.
Robertson (t.v) ásamt góðvini sínum og samstarfsmanni Martin O'Neill. Mike Egerton/EMPICS via Getty Images

Skotinn John Robertson, fyrrum leikmaður Nottingham Forest og Derby County, er fallinn frá 72 ára að aldri.

Robertson var öflugur leikmaður sem skoraði meðal annars sigurmark Nottingham Forest í 1-0 sigri á Hamburg í úrslitaleik í Evrópukeppni meistaraliða árið 1980. Þá lagði hann upp sigurmark Trevor Francis í úrslitaleik Forest við Malmö í sömu keppni ári fyrr.

Brian Clough, þáverandi þjálfari Forest, kallaði hann á sínum tíma Picasso fótboltans. Slíkar væru listirnar sem hann lék á vellinum.

Robertson var náinn samstarfsmaður Martins O'Neill, samherja hans hjá Forest, eftir að leikmannaferli þeirra lauk. Hann var aðstoðarþjálfari O'Neill hjá Wycombe, Norwich, Leicester, Celtic og Aston Villa.

Stan Collymore, fyrrum framherji Liverpool, sem lék undir stjórn þeirra hjá Leicester minnist Robertson á samfélagsmiðlinum X: „Hann vissi af vandamálum mínum utan vallar en í stað þess að gera grín að þeim líkt og margir, setti hann öxl utan um mig. Hann studdi við mig og sýndi samkennd sína og góðvild, og sýndi mér raunverulegan stuðning“.

Gera má ráð fyrir að Robertson verði minnst þegar Forest mætir Manchester City á City Ground í Nottingham í hádeginu 27. desember.

Nánar má lesa um Robertson á vef breska ríkisútvarpsins, BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×