Enski boltinn

Fulham skildi Forest eftir við fallsvæðið

Sindri Sverrisson skrifar
Raul Jimenez brosti breitt eftir að hafa komið Fulham yfir.
Raul Jimenez brosti breitt eftir að hafa komið Fulham yfir. Getty/Julian Finney

Fulham vann sinn annan sigur í röð í kvöld þegar liðið hafði betur gegn Nottingham Forest, 1-0, í lokaleik 17. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta.

Mexíkóinn Raul Jimenez skoraði sigurmark leiksins úr vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks. Spyrnan var dæmd þegar Douglas Luiz braut á Kevin innan teigs.

Jimenez hefur nú skorað úr öllum ellefu vítaspyrnum sínum í ensku úrvalsdeildinni en vítaspyrna hans var eina skotið sem hitti markrammann í fyrri hálfleiknum.

Fjörið var ekki mikið meira í seinni hálfleik en þó kom til lítils háttar hópátaka sem lauk með því að Jorge Cuenca og Nikola Milenkovic fengu báðir gult spjald. Forest tókst aldrei að gera mikla atlögu að því að jafna metin og heimamenn fögnuðu þremur stigum.

Þar með er Fulham í 13. sæti með 23 stig en Forest situr eftir í 17. sæti með 18 stig, fyrir ofan fallsætin þrjú. Enn eru þó fimm stig í næsta lið fyrir neðan Forest sem er West Ham.

Forest á erfiðan leik fyrir höndum næsta laugardag, gegn Manchester City á heimavelli, en Fulham sækir West Ham heim í Lundúnaslag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×