Fótbolti

Glódís Perla veik í jóla­fríið en enn taplaus

Sindri Sverrisson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir spilaði síðast 10. desember, í jafntefli við Atlético Madrid á Spáni.
Glódís Perla Viggósdóttir spilaði síðast 10. desember, í jafntefli við Atlético Madrid á Spáni. Getty/Denis Doyle

Glódís Perla Viggósdóttir gat ekki spilað með Bayern München í 3-0 sigrinum gegn Leverkusen í dag, í þýsku 1. deildinni í fótbolta, og missti því af síðustu þremur leikjunum fyrir eins mánaðar frí sem nú tekur við.

Bayern greindi frá því í dag að Glódís væri að glíma við veikindi, líkt og Giulia Gwinn og Lea Schüller, og að þær yrðu því ekki með gegn Leverkusen. Það kom ekki að sök, né heldur að víti Pernille Harder færi í súginn, því Franziska Kett, Momoko Tanikawa og Georgia Stanway tryggðu Bayern sigur.

Glódís varð einnig að hætta við að spila gegn Vålerenga í Meistaradeildinni fyrir fimm dögum, þá með skömmum fyrirvara vegna veikinda, þegar Bayern tryggði sig inn í 8-liða úrslit keppninnar. Áður hafði hún misst af deildarleik gegn Hamburg og því ekki spilað síðan 10. desember.

Næsti leikur Bayern er svo ekki fyrr en 25. janúar, gegn Leipzig í þýsku deildinni. Þar er Bayern efst með 40 stig og nú með sex stiga forskot á næsta lið, Wolfsburg, eftir 14 umferðir af 26, eftir að hafa unnið 13 leiki og gert eitt jafntefli. Leverkusen er í 7. sæti með 22 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×