Fótbolti

Hleður Kjartan lofi eftir frá­bæra frum­raun með Aber­deen

Aron Guðmundsson skrifar
Kjartan Már í fyrsta leik sínum með Aberdeen í dag gegn Celtic í skosku úrvalsdeildinni
Kjartan Már í fyrsta leik sínum með Aberdeen í dag gegn Celtic í skosku úrvalsdeildinni Vísir/Getty

Hinn 19 ára gamli Kjartan Már Kjartansson hlýtur mikið lof frá þjálfara sínum hjá skoska úrvalsdeildarfélaginu Aberdeen eftir frábæra frumraun gegn stórliði Celtic.

Aberdeen tapaði leiknum 3-1 en innkoma Kjartans Más af varamannabekknum, í hans fyrsta leik fyrir félagið, var einn af ljósu punktunum fyrir Aberdeen í leik dagsins. 

Kjartan lagði upp eina mark Aberdeen í leiknum og Jimmy Thelin, þjálfari liðsins, var ánægður með það sem hann sá frá Íslendingnum unga sem og markaskoraranum Kenan Bilalovic, sem hefur einnig þurft að bíða þolinmóður eftir tækifæri með liðinu.

„Þegar að þeir ganga til liðs við okkur á sínum tíma var vitað að Kjartan og Kenan þyrftu tíma til þess að aðlagast umhverfinu hér, ákefðinni í leiknum hér sem og líkamlegu baráttunni,“ sagði Thelin þjálfari Aberdeen eftir leik. „Við æfum á hverjum degi og þeir aðlagast betur og betur, vaxa sem leikmenn og verða samkeppnishæfir. Það var gott að sjá þeirra frammistöðu í dag á erfiðum útivelli og á erfiðri stundu. Hvernig þeir tókust á við áskoranir leiksins og sýndu hvað í þeim býr, karakter þeirra skein í gegn.“

Þeir hafi báðir gripið tækifærið sem þeir fengu í dag.

„Það er svo mikilvægt að þegar tækifærið gefst að þú grípir það og sýnir hvað í þér býr. Aldur þeirra skiptir engu máli í þessu samhengi, bara að þeir nái að sýna sig. Ég tel að þeir báðir hafi gripið sitt tækifæri í dag. Þeir geta verið mjög sáttir með sína frammistöðu.“

Fyrsti leikurinn að baki hjá Kjartani með Aberdeen. Hann gekk til liðs við félagið síðastliðið sumar frá Stjörnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×