Handbolti

Rúm­lega átt­ræður Moustafa endur­kjörinn for­seti IHF með yfir­burðum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hassan Moustafa hefur ráðið ríkjum hjá IHF undanfarinn aldarfjórðung.
Hassan Moustafa hefur ráðið ríkjum hjá IHF undanfarinn aldarfjórðung. getty/Jan Woitas

Hassan Moustafa var endurkjörinn forseti Alþjóða handknattleikssambandsins (IHF) með miklum yfirburðum í dag. Egyptinn er 81 árs og hefur stýrt IHF undanfarin 25 ár.

Moustafa var endurkjörinn forseti IHF á ársþingi sambandsins sem er haldið í heimaborg hans, Kairó. Þingið átti að fara fram í síðasta mánuði en var seinkað.

Moustafa fékk 129 atkvæði af 176 í forsetakjörinu en hann fékk mótframboð í fyrsta sinn síðan 2009. Mótframbjóðendur hans áttu litla möguleika. Franc Bobinac fékk 24 atkvæði í kjörinu, Gerd Butzeck tuttugu og Tjark de Lange þrjú.

Moustafa var fyrst kjörinn forseti IHF í nóvember 2000. Hann tók þá við af Austurríkismanninum Erwin Lanc.

Athygli vakti að Moustafa var ekki viðstaddur úrslitahelgi heimsmeistaramóts kvenna um síðustu helgi. Samkvæmt upplýsingum frá IHF var það vegna anna við undirbúning ársþings sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×