Enski boltinn

„Ef dómarinn hefði sinnt sínu starfi al­menni­lega hefði Romero ekki fengið spjald“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hugo Ekitike skorar annað mark Liverpool gegn Tottenham. Cristian Romero vildi meina að Frakkinn hefði brotið á sér þegar hann skallaði boltann í netið.
Hugo Ekitike skorar annað mark Liverpool gegn Tottenham. Cristian Romero vildi meina að Frakkinn hefði brotið á sér þegar hann skallaði boltann í netið. getty/Alex Pantling

Thomas Frank, knattspyrnustjóri Tottenham, var ekki sáttur við dómarann John Brooks eftir leikinn gegn Liverpool. Hann sagði að Cristian Romero hefði ekki verið rekinn út af ef Brooks hefði sinnt starfi sínu almennilega.

Tottenham laut í lægra haldi fyrir Liverpool á heimavelli í gær, 1-2. Spurs lauk leik með níu menn inni á vellinum. Í fyrri hálfleik var Hollendingurinn Xavi Simons rekinn út af fyrir að brjóta á landa sínum, Virgil van Dijk.

Í uppbótartíma, þegar Spurs freistaði þess að jafna metin, fékk Romero, fyrirliði liðsins, sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir að sparka í Ibrahima Konaté, varnarmann Liverpool.

Romero fékk fyrra gula spjaldið í kjölfar annars marks Liverpool sem Hugo Ekitike skoraði. Romero taldi Ekitike hafa hrint sér í þann mund sem hann skallaði boltann í netið. Frank var sammála fyrirliða sínum og gagnrýndi Brooks í leikslok.

„Þetta voru stór mistök hjá John. Ekitike var með báðar hendur á bakinu á honum,“ sagði Frank.

„Ég skil ekki hvernig hann sá þetta ekki. Ókei, sem betur fer erum við með VAR sem sker þig úr snörunni þegar þess þarf en það gerðist ekki. Það voru önnur mistökin. Ef þú horfir aftur á þetta mark og ef dómarinn hefði sinnt sínu starfi almennilega hefði Romero ekki fengið spjald. Er ekki sanngjarnt að segja það?“

Tottenham hefur tapað tveimur leikjum í röð og er í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 22 stig eftir sautján leiki. Talsverð pressa er á Frank sem tók við Spurs af Ange Postecoglou í sumar. Sá danski hefur stýrt Tottenham í 26 leikjum. Tíu þeirra hafa unnist, níu tapast og sjö endað með jafntefli.

Næsti leikur Tottenham er Lundúnaslagur gegn Crystal Palace á Selhurst Park eftir viku.


Tengdar fréttir

Gleði og sorg í sigri Liverpool

Liverpool vann góðan 2-1 sigur á Tottenham í 17.umferð ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld þar sem að tvö rauð spjöld fóru á loft. Stuðningsmenn Liverpool geta leyft sér að gleðjast yfir sigrinum en sorg gerir þó einnig vart um sig. Alexander Isak skoraði fyrsta mark liðsins en þurfti í kjölfarið að fara meiddur af velli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×