Fótbolti

Orri Steinn kominn með nýjan þjálfara

Aron Guðmundsson skrifar
Orri Steinn í leik gegn Barcelona 
Orri Steinn í leik gegn Barcelona  EPA-EFE/Alejandro Garcia

Landsliðsfyrirliði Íslands í fótbolta, Orri Steinn Óskarsson, er kominn með nýjan þjálfara hjá félagsliði sínu Real Sociedad. Bandaríkjamaðurinn Pellegrino Matarazzo hefur skrifað undir samning út tímabilið 2027.

Matarazzo er 48 ára gamall, fæddur í Wayne, New Jersey í Bandaríkjunum en hefur á sínum ferli einungis starfað í Þýskalandi til þessa. 

Sem leikmaður spilaði hann í neðri deildum Þýskalands en sem þjálfari hefur hann stýrt liðum á borð við Stuttgart og Hoffenheim. 

Pellegrino Matarazzo, nýr þjálfari Real SociedadVísir/Getty

Hjá Stuttgart festi hann liðið á nýjan leik í sessi í efstu deild og kom þeim í Evrópukeppni og fær nú það verkefni hjá Real Sociedad að snúa gengi liðsins við.

Fyrr í dag gerði liðið jafntefli við Levante og er sem stendur í 16.sæti spænsku úrvalsdeildarinnar með 17 stig, aðeins tveimur stigum frá fallsæti. 

Góðu fréttirnar fyrir Pellegrino, nú þegar hann fer að hefja sinn kafla hjá Sociedad, eru þær að Orri Steinn mun brátt verða leikfær á nýjan leik eftir að hafa glímt við krefjandi meiðsli. Orri er byrjaður að æfa og styttist í að hann geti látið til sín taka inn á vellinum.

Pellegrino er fyrsti þjálfari Sociedad frá árinu 2015 sem ekki er Spánverji. Á þeim tíma var David Moyes, núverandi knattspyrnustjóri Everton, þjálfari liðsins.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×