Sport

Rekinn af HM eftir að hafa fallið á lyfja­prófi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gamanið var stutt hjá Dom Taylor á HM í pílukasti.
Gamanið var stutt hjá Dom Taylor á HM í pílukasti. getty/Andrew Redington

Englendingnum Dom Taylor hefur verið vísað úr keppni á heimsmeistaramótinu í pílukasti. Hann féll á lyfjaprófi í annað sinn á innan við ári.

Taylor tryggði sér sæti í 2. umferð HM með 3-0 sigri á Oskar Lukasiak frá Svíþjóð á sunnudaginn. 

Í 2. umferðinni átti Taylor að mæta Walesverjanum Jonny Clayton. Ekkert verður af þeirri viðureign og Clayton fær því sæti í 3. umferðinni.

Í gær var greint frá því að Taylor hefði fallið á lyfjaprófi sem var tekið á sunnudaginn. Ekki liggur fyrir hvaða efni greindist í sýni Taylors.

Englendingurinn var dæmdur í eins mánaðar bann í nóvember í fyrra eftir að hann féll á lyfjaprófi og missti fyrir vikið af HM 2025. Taylor slapp við þyngri refsingu, jafnvel tveggja ára bann, þar sem lyfið sem hann neytti var ekki árangursaukandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×