Fótbolti

Helmingur landsliðs­kvenna er undir lág­marks­launum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir og leikmenn íslenska landsliðsins fengu tækifæri til að svara þessari könnun FIFPRO á Evrópumótinu síðasta sumar.
Sveindís Jane Jónsdóttir og leikmenn íslenska landsliðsins fengu tækifæri til að svara þessari könnun FIFPRO á Evrópumótinu síðasta sumar. Getty/Aitor Alcalde

Alþjóðaleikmannasamtökin, FIFPRO, gerðu könnun meðal 407 landsliðskvenna frá 41 landi sem spiluðu á EM, Copa America, Afríkukeppninni og Eyjaálfukeppninni og niðurstöðurnar eru vissulega sláandi.

49% þeirra þéna minna en 7500 pund á ári og 34% þéna minna en 3700 pund. 7500 pund eru 1,3 milljónir í íslenskum krónum og 3700 pund eru aðeins 626 þúsund krónur í árslaun. 25 prósent leikmanna í könnuninni þurfa að vinna aðra vinnu með fótboltanum til að ná endum saman.

Könnunin var gerð á tímabilinu ágúst til október. Þar kom einnig í ljós að þriðjungur leikmanna var með samning til skemmri tíma en eins árs og 22 prósent voru alls ekki með samning.

Þrátt fyrir að kvennaknattspyrna hafi vaxið gríðarlega á undanförnum árum er enn mikið verk óunnið til að tryggja að þessar afreksíþróttakonur fái stuðning og séu fjárhagslega öruggar.

„Þetta er endurtekning á könnun sem við gerðum árið 2022 í öllum álfusamböndum, og þótt nokkrar markverðar framfarir hafi orðið benda gögnin til þess að frekari framþróunar sé þörf,“ sagði Dr. Alex Culvin, yfirmaður kvennaknattspyrnu hjá Fifpro.

„Gögnin eru mjög skýr – flestir leikmenn hafa ófullnægjandi tekjur til að tryggja sér öruggan feril innan íþróttarinnar,“ sagði Culvin.

„Þetta er áhætta fyrir sjálfbærni íþróttarinnar því leikmenn munu vera líklegri til að hætta snemma í fótbolta til að ná endum saman,“ sagði Culvin.

Könnun Fifpro inniheldur einnig gögn um álag á leikmenn og ferðaskilyrði.

58 prósent leikmanna sögðu hvíld fyrir leiki ekki vera nægilega langa og 57 prósent sögðu hvíld eftir leik vera ófullnægjandi.

75 prósent leikmanna ferðuðust í almennu farrými en aðeins 11 prósent ferðuðust í betra almennu farrými eða viðskiptafarrými. 77 prósent leikmanna ferðuðust með flugi á leik og flestir gerðu það oftar en einu sinni.

Alþjóðaknattspyrnusambandið Fifa hefur sagt að það að flýta fyrir vexti kvennaknattspyrnunnar og þróa fagmennsku séu meðal helstu markmiða þess.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×