Bíó og sjónvarp

Fram­hald af Napóleonsskjölunum í vinnslu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Vivian Ólafsdóttir fer með aðalhlutverkið í Napóleonsskjölunum 2, rétt eins og fyrri myndinni.
Vivian Ólafsdóttir fer með aðalhlutverkið í Napóleonsskjölunum 2, rétt eins og fyrri myndinni.

Framleiðsla er hafin á kvikmyndinni Napóleonsskjölin 2 – Tár úlfsins sem er beint framhald af Napóleonsskjölunum, sem byggði á samnefndri metsölubók Arnaldar Indriðasonar og naut vinsælda hérlendis og erlendis.

Ólafur Darri Ólafsson, Vivian Ólafsdóttir og Jack Fox snúa aftur og verða í lykilhlutverkum í myndinni auk breska leikarans Tom Weston-Jones sem hefur leikið í sjónvarpsþáttunum Warrior (2019-2023), Shadow and Bones (2021) og Sanditon (2022).

Leikstjóri myndarinnar er hinn finnski Jyri Kähönen sem hefur áður leikstýrt sjónvarpsþáttunum Ihon Alla (2015-16) Bordertown (2016-18) og Trackers (2019). Handrit myndarinnar er eftir Martein Þórisson sem einnig skrifaði handrit fyrstu myndarinnar.

Gert er ráð fyrir að myndin verði frumsýnd í Sambíóunum næstkomandi haust og síðar víða um heim, þar með talið í Evrópu og Bandaríkjunum. Beta Film sér um dreifingu á myndinni í Evrópu og hefur hún þegar verið seld til Bretlands, Frakklands, Spánar og Póllands. Bandaríska dreifingarfyrirtækið Magnolia Pictures hefur tryggt sér réttinn til dreifingar á myndinni í kvikmyndahús og sjónvarp í Bandaríkjunum.

Þegar seld til fjölda landa

Fyrri myndin var frumsýnd árið 2023, naut mikillar aðsóknar í íslenskum kvikmyndahúsum og seldist til yfir fjörutíu landa, þar á meðal til Bandaríkjanna. 

Í Tárum úlfsins heldur aðalsöguhetjan Kristín (Vivian Ólafs) og teymi hennar af stað í nýja og hættulega leit að hinum goðsagnakenndu demöntum nasista, sem sagt er að hafi verið faldir í lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Þegar Kristín verður vitni að morði kemst hún á sporið og, ásamt félögunum Steve (Jack Fox) og Einari (Ólafur Darri), reynir hún að ráða dulmál, tónbrot og minjar úr stríðinu sem leiða þau inn á dularfullar söguslóðir Evrópu.

Ferðin ber þau frá íslenskum jöklum til finnskra skóga og neðanjarðarganga í Helsinki, þar sem dramatískur lokaslagur fer fram í eyjaklasa Finnlands. Á leiðinni þurfa þau að glíma við svik, leyndarmál og ógnir fortíðar.

Framleiðendur myndarinnar eru Beggi Jónsson, Kjartan Þór Þórðarson og Skarphéðinn Guðmundsson fyrir Sagafilm á Íslandi, Aðalsteinn Jóhannsson fyrir framleiðslufyrirtækið Þungur hnífur, ásamt Anitu Elsani og Alexander Klein fyrir þýska Splendid Entertainment og Eero Hietala og Sara Nordberg fyrir Take Two Studios og Elsani Film. Tökur fara fram á Íslandi, í Turku á Finnlandi og í Hamborg.

„Tár úlfsins er ætlað að sameina kraft norrænnar glæpasagnahefðar, sögulegar vísanir og metnaðarfulla alþjóðlega kvikmyndagerð. Við byggjum hér áfram á arfleifð Arnaldar Indriðasonar ogvelgengni fyrri myndarinnar sem sýndi að íslenskar glæpasögur geta náð víða — bæði í bíóhúsum og á stærstu streymisveitum heims,“ segir Skarphéðinn Guðmundsson hjá Sagafilm um myndina.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.