Fótbolti

Varði fjögur víti til að tryggja PSG titilinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Safonov ver eina af fjórum vítaspyrnum sínum í kvöld.
Safonov ver eina af fjórum vítaspyrnum sínum í kvöld. Jan Kruger - FIFA/FIFA via Getty Images

Evrópumeistarar Paris Saint-Germain eru Álfubikarmeistari FIFA í fótbolta eftir sigur á Suður-Ameríkumeisturum Flamengo í úrslitaleik í Katar. Markvörður PSG varði fjórar spyrnur í vítakeppni sem úkljáði úrslitin.

Um var að ræða fyrsta leik PSG í keppninni en Evrópumeistarar fá sæti í úrslitaleiknum. Suður-Ameríkumeistarar Flamengo höfðu unnið Norður-Ameríkumeistara Cruz Azul frá Mexíkó og Afríkumeistara Pyramids FC frá Egyptalandi til að komast í úrslitin.

Leikur kvöldsins var lokaður en Georgíumanninum Kvicha Kvaratskhelia tókst að brjóta ísinn fyrir Parísarliðið með vinstri fótar skoti sem hafnaði í markinu á 38 . mínútu. 1-0 stóð þar til rúmur stundarfjórðungur var liðinn af síðari hálfleik þegar Brassinn Marquinhos braut af sér innan teigs og Flamengo fékk vítaspyrnu.

Ítalski Brassinn Jorginho, fyrrum leikmaður Arsenal og Chelsea, steig á punktinn og skoraði. Staðan var 1-1 eftir 90 mínútna leik og framlengja þurfti. Ekkert var skorað í framlengingu og vítaspyrnukeppni tók við.

Þar reyndist rússneski markvörðurinn Matvey Safonov hetja Parísarliða er hann varði heilar fjórar vítaspyrnur.

PSG vann vítakeppnina 2-1 og er því Álfubikarmeistari FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×