Enski boltinn

Sjáðu mörkin úr ó­trú­legu átta marka jafn­tefli á Old Trafford

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bruno Fernandes skoraði eitt mark og lagði upp annað gegn Bournemouth.
Bruno Fernandes skoraði eitt mark og lagði upp annað gegn Bournemouth. getty/Carl Recine

Einn skemmtilegasti leikur tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni fór fram á Old Trafford í gær þar sem Manchester United og Bournemouth gerðu 4-4 jafntefli.

United var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddi, 2-1, að honum loknum.

Amad Diallo kom heimamönnum yfir á 13. mínútu en Antoine Semenyo jafnaði á 40. mínútu. Þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik náðu Rauðu djöflarnir forystunni á nýjan leik þegar Casemiro skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu Brunos Fernandes.

Bournemouth byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og strax á upphafsmínútu hans jafnaði Evanilson. Á 52. mínútu kom Marcus Tavernier gestunum svo yfir með skoti beint úr aukaspyrnu.

Fernandes vildi ekki vera minni maður og jafnaði með skoti beint úr aukaspyrnu á 77. mínútu. Skömmu síðar kom Matheus Cunha United yfir.

Adam var þó ekki lengi í paradís því Frakkinn ungi, Eli Junior Kroupi, jafnaði sex mínútum fyrir leikslok, 4-4. Bournemouth fékk tvö góð færi undir lokin til að tryggja sér sigurinn en markvörðurinn Senne Lammens kom United til bjargar.

Klippa: Man. Utd. - Bournemouth 4-4

Eftir leikinn í gær er United í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 26 stig. Crystal Palace, Liverpool og Sunderland eru með jafn mörg stig. Bournemouth er í 13. sætinu með 21 stig.

Mörkin átta úr leiknum ótrúlega í gær má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×