Enski boltinn

„Finnst þér ekki eins og hann sé þjakaður af pressu yfir því hvað hann sé lé­legur?“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viktor Gyökeres þótti ekki eiga góðan leik gegn Wolves.
Viktor Gyökeres þótti ekki eiga góðan leik gegn Wolves. getty/Catherine Ivill

Framherjamál Arsenal voru til umræðu í Sunnudagsmessunni í gær, meðal annars frammistaða Viktors Gyökeres það sem af er tímabili.

Arsenal vann nauman sigur á botnliði Wolves, 2-1, í fyrradag. Sigurmarkið var sjálfsmark og kom í uppbótartíma.

Gyökeres byrjaði í fremstu víglínu hjá Skyttunum gegn Úlfunum en fann sig ekki. Mikel Merino, sem hefur leyst stöðu framherja hjá Arsenal að undanförnu, kom inn á eftir tæplega klukkutíma. 

„Ég hefði haldið í þessum leik hefði Merino hentað betur frammi, með allar litlu og fínu sendingarnar sínar frekar en Gyökeres,“ sagði Bjarni Guðjónsson í Messunni.

Klippa: Messan - umræða um framherjamál Arsenal

Eftir langa fjarveru vegna meiðsla er Gabriel Jesus aftur kominn á ferðina og hann átti þátt í sigurmarki Arsenal gegn Wolves.

Svífur um fyrstu leikina

„Ef hann er að koma inn á og valda svona usla sem skilar sigri er hann strax byrjaður að því,“ sagði Kjartan Henry Finnbogason, aðspurður hvort Jesus myndi hafa áhrif á leik Arsenal.

Gabriel Jesus í baráttu við Yerson Mosquera sem skallaði boltann í eigið mark og tryggði Arsenal sigur á Wolves.getty/Catherine Ivill

„Það er ár síðan hann spilaði síðast. Hann er frábær leikmaður en það er oft þannig þegar þú kemur til baka að þá svífurðu alveg um fyrstu 3-4 leikina en svo kemur bakslag,“ sagði Kjartan Henry og beindi því næst umræðunni að Merino og Gyökeres.

Finnst hann ekki henta Arsenal

„Við vorum að tala um það í Big Ben um daginn að ef við ættum að velja framherja fyrir Arsenal eins og staðan er í dag hefði ég alltaf valið Merino,“ sagði Kjartan Henry.

„Það er allt önnur skepna að koma í ensku úrvalsdeildina úr þeirri portúgölsku og þeir [Sporting] spiluðu allt öðruvísi fótbolta heldur en Arsenal gerir. Þetta tekur tíma og það er svakaleg pressa á honum. En mér finnst hann ekki henta Arsenal eins og Arsenal vill spila.“

Mikel Arteta ræðir við sína menn.getty/Catherine Ivill

Í sporum Mikels Arteta, knattspyrnustjóra Arsenal, myndi Kjartan Henry frekar veðja á Merino en Gyökeres.

„Maður getur bara tekið mið af því sem er í dag. Ef ég ætti að velja myndi ég hafa Merino frammi,“ sagði Kjartan Henry.

Áhyggjur í svipnum

Bjarna finnst áran yfir Gyökeres ekki góð.

„Finnst þér lúkkið á honum ekkert þannig að hann sé þjakaður af pressu yfir því hvað hann sé lélegur?“ sagði Bjarni. 

„Það eru áhyggjur í svipnum og hann fer að svara þegar það er kallað á hann á meðan þegar Merino fer fram hugsar hann bara: Ég þarf ekki að skora. Ég er ekki framherji. Ég ætla bara að spila þennan leik eins og ég er beðinn um að spila og þetta flýtur og rúllar mikið betur í kringum hann.“

Innslagið úr Messunni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Tvö sjálfsmörk færðu Arsenal fimm stiga forkost á toppnum

Arsenal er komið aftur á sigurbraut og með fimm stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir dramatískan 2-1 sigur á botnliði Úlfanna í kvöld. Úlfarnir skoruðu þó öll mörkin á Emirates-leikvanginum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×