Enski boltinn

„Í dag er dagurinn sem þú fæddist, í dag er dagurinn sem þú munt deyja“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Laura Woods sést hér í útsendingu TNT Spots frá leik í Meistaradeildinni.
Laura Woods sést hér í útsendingu TNT Spots frá leik í Meistaradeildinni. Getty/Ryan Crockett

Íþróttafréttakonan Laura Woods var áreitt af eltihrelli í nokkur ár en í ljós kom að eltihrellirinn var ung kona.

Dag einn fékk Woods afmæliskort með óhugnanlegum skilaboðum: „Í dag er dagurinn sem þú fæddist, í dag er dagurinn sem þú munt deyja,“ stóð í kortinu.

Woods segist hafa lifað í ótta og fundist hún vera mjög berskjölduð. Á bak við allt saman var 25 ára gömul kona sem hafði fengið þráhyggju fyrir Lauru Woods.

„Í þrjú ár gekk hún ákaflega langt til að gera líf mitt mjög óþægilegt,“ sagði sjónvarpsstjarnan í viðtali við The Telegraph. Aftonbladet segir frá.

Woods hefur aldrei áður tjáð sig um atvikið en nú greinir hún frá öllum smáatriðum.

Konan sendi morðhótanir, skipaði öðrum að áreita hana, hringdi í lögregluna og bjó til sögur.

Dag einn réðst lögreglan inn á heimili Woods eftir að konan hafði hringt og sagt að vopnaður maður væri að draga sjónvarpsstjörnuna um.

Hún sendi einnig myndskeið af útidyrum Woods. „Þetta var hræðilegt. Hún reyndi að ná til mín á allan hugsanlegan hátt,“ sagði Woods.

Seinna sendi hún einnig líflátshótanir gegn hundum Woods, biblíur, kynsjúkdómapróf og matarpantanir.

Woods fannst hún vera úthrópuð og niðurdregin og þjáðist af kvíða.

Konan var handtekin í apríl 2022 og aftur síðar sama ár. Hún var síðar dæmd í fjórtán mánaða fangelsi og fékk einnig nálgunarbann. Nú er hún laus aftur.

„Ég hef ekkert heyrt frá henni síðan hún losnaði úr fangelsi,“ sagði Woods og bankar í við.

Laura Woods er þekktur og vel metinn íþróttafréttamaður og þáttastjórnandi sem sést oft í breskum fótboltaútsendingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×