Viðskipti innlent

DiBiasio og Beaudry til Genis

Atli Ísleifsson skrifar
Michael Beaudry og Stephen DiBiasio.
Michael Beaudry og Stephen DiBiasio. Genis

Genis hf. hefur ráðið Stephen DiBiasio til starfa og mun hann stýra alþjóðlegum rekstrar- og markaðsmálum félagsins. Þá hefur Michael Beaudry verið ráðinn til að leiða markaðssókn fæðubótarefnisins Benecta í Bandaríkjunum.

Í tilkynningu segir að Stephen DiBiasio hafi yfir þrjátíu ára farsælan feril á sviði lækningatækna og lífvísinda.

„Hann hefur starfað bæði sem framkvæmdastjóri, fjárfestir og ráðgjafi og gegndi síðast stöðu framkvæmdastjóra sölu hjá Kerecis. Þar vann hann náið með stofnanda fyrirtækisins að alþjóðlegum vexti, fjármögnun og uppbyggingu markaðsstarfs, m.a. með því að tryggja fjárfestingu sem nam yfir 100 milljónum Bandaríkjadollara. Sú uppbygging skilaði félaginu umtalsverðum árangri, þar á meðal 60% meðalársvexti og yfirtöku Coloplast á Kerecis árið 2023 fyrir 1,3 milljarða Bandaríkjadollara.

Michael Beaudry býr yfir áratugalangri reynslu úr rekstri og dreifingu fæðubótarefna og annarra heilsutengdra vara og uppbyggingu fyrirtækja. Hann stofnaði HERBL og stýrði fyrirtækinu sem náði miklum og hröðum vexti, þar sem árstekjur náðu nær 300 milljónum bandaríkjadollara á innan við þremur árum. Michael hefur jafnframt gegnt leiðandi stjórnunarstörfum hjá United Natural Foods og síðar hjá Lang Pharma Nutrition, þar sem hann kom að sameiningum, uppbyggingu innviða og rekstri stærri eininga á alþjóðlegum mörkuðum,“ segir í tilkynningunni.

Genis hf. er íslenskt líftæknifyrirtæki með starfsemi á Siglufirði og í Reykjavík. Fyrirtækið byggir vörur sínar á áralöngum rannsóknum, þróun og nýtingu lífefna úr rækjuskel og framleiðir og selur fæðubótarefnið Benecta og þróar lækningatæki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×