Fótbolti

Dóms­mál vegna and­láts Sala hefst í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emiliano Sala komst aldrei til Cardiff. Hann varð bara 28 ára gamall.
Emiliano Sala komst aldrei til Cardiff. Hann varð bara 28 ára gamall. Getty/Matthew Horwood

Mál Cardiff City gegn franska félaginu Nantes vegna andláts argentínska fótboltamannsins Emiliano Sala verður tekið fyrir í frönskum dómstóli í dag.

Velska knattspyrnufélagið krefst bóta að andvirði meira en 100 milljóna punda (sautján milljarða króna) frá franska félaginu í skaðabótamáli vegna vanrækslu, sem nær yfir fimmtán milljóna punda kaupverð argentínska framherjans og tap á öðrum hugsanlegum tekjum.

Sala, 28 ára, lést í janúar 2019 þegar lítil flugvél sem hann ferðaðist með til að ganga til liðs við Cardiff eftir að félögin höfðu gengið frá samningi, hrapaði í Ermarsund.

Cardiff heldur því fram að Nantes beri ábyrgð og segir að flugið hafi verið skipulagt af umboðsmanni sem franska félagið réð.

Upphaflega átti málið að vera tekið fyrir í september en var frestað til desember að beiðni Nantes.

Í yfirlýsingu frá Cardiff sem gefin var út á sunnudag segir: „Á morgun mun viðskiptadómstóll Nantes loksins taka fyrir efnisatriði máls Cardiff City Football Club gegn FC Nantes.“

„Réttarhaldið markar enn eitt skrefið í átt að því að afhjúpa sannleikann og koma á meiri ábyrgð í fótbolta.“

Cardiff, sem nú er í League One, var í ensku úrvalsdeildinni þegar harmleikurinn átti sér stað.

Fréttastofan Press Association hefur leitað eftir umsögn frá FC Nantes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×