Viðskipti erlent

„Brunaútsala“ á hluta­bréfum eftir elds­voðann í Hong Kong

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Eldsvöðinn varð í sjö íbúðaturnum Wang Fuk í Hong Kong þann 26. nóvember síðastliðinn. 
Eldsvöðinn varð í sjö íbúðaturnum Wang Fuk í Hong Kong þann 26. nóvember síðastliðinn.  Getty/VCG

Hlutabréfaverð í danska þjónustufyrirtækinu ISS hrapaði í dönsku kauphöllinni í dag en lækkunin er rakin til stórbrunans í Hong Kong í síðustu viku. Um 7% lækkun er rakin til dótturfélags ISS, EastPoint í Hong Kong, sem ku hafa gegnt lykilhlutverki við framkvæmdir í byggingunum sem sagðar eru hafa orsakað eldsvoðann sem varð yfir 150 manns að bana.

DR hefur eftir dönsku fréttaveitunni Ritzau, sem vísar í umfjöllun South China Monitoring Post, að dótturfélag ISS hafi farið með umsjón bygginganna sem fuðruðu upp í ljósum logum í síðustu viku. Fyrirtækið hafi verið meðvitað um að brunavarnarkerfi væri í ólagi en áður hefur komið fram í fréttum að brunabjalla hafi ekki þjónað tilætluðum tilgangi þegar eldurinn kom upp.

Stjórnvöld hafa grun um að eldfimur efniviður hafi verið notaður við viðhaldsframkvæmdir í byggingunum sem skýri hvers vegna eldurinn hafi breiðst svo hratt út. 

Reuters vitnar í yfirlýsingu frá ISS þar sem segi að dótturfélagið í Hong Kong, ISS EastPoint Properties Limited, hafi veitt eigendum byggingarinnar stuðning við umsjón bygginganna. Hins vegar hafi fyrirtækið ekki komið að vali á verktökum þeim sem önnuðust framkvæmdirnar né heldur haft eftirliti með störfum þeirra með reglubundnum hætti. Fyrirtækið styðji ákvörðun stjórnvalda í Hong Kong um stofnun rannsóknarnefndar vegna eldsvoðans, sem er sá mannskæðasti í borginni í fleiri áratugi. ISS kveðst munu vinna með stjórnvöldum við rannsókn stjórnvalda.

Engu að síður hefur atburðurinn haft umtalsverð áhrif á gengi danska félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×