Fótbolti

Hetja Heimis Hall­gríms var skúrkur um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Troy Parrott var skiljanlega mjög svekktur eftir að hafa klúðrað víti sem hefði tryggt AZ Alkmaar stig á móti FC Twente.
Troy Parrott var skiljanlega mjög svekktur eftir að hafa klúðrað víti sem hefði tryggt AZ Alkmaar stig á móti FC Twente. Getty/ANP

Troy Parrott skoraði öll fimm mörkin í sigrunum tveimur þegar lærisveinar Heimis Hallgrímssonar í írska landsliðinu tryggðu sér sæti í HM-umspilinu. Hann var engin hetja í hollenska boltanum um helgina heldur þvert á móti.

Parrott var að spila með AZ Alkmaar og gat tryggt liði sínu stig undir lok leiksins. Þegar Twente leiddi í uppbótartíma steig Parrott fram til að taka vítaspyrnu sem hefði tryggt liði hans 1-1 jafntefli.

Írinn reyndi Panenka-vítaspyrnu en mistókst hrapallega og sendi boltann hátt yfir þverslána, leikmönnum Twente til mikillar gleði sem gerðu óspart grín að honum fyrir það sem þeir töldu vera hroka.

Stjóri hans var heldur ekki mildur í dómum og gagnrýndi val hans á vítaspyrnutækni. Það má sjá vítið hér fyrir neðan.

„Þetta var léleg afgreiðsla. Ef hann hefði vippað boltanum þarna og skorað, hefði hann staðið sig vel,“ sagði knattspyrnustjórinn Maarten Martens eftir leikinn.

„Troy tók ábyrgð; hann lagði allt í sölurnar í dag en kláraði ekki vel. Hann hefur þegar tekið ábyrgð á því gagnvart restinni af liðinu,“ sagði Martens.

„Hann tók ábyrgð á stigatapinu, og réttilega. Hann getur gert mun betur en þetta, hann gerir sér grein fyrir því sjálfur. Þetta var ekki nógu gott í dag. Hann er samt framherji og hann er skapandi. Við munum örugglega ræða þetta,“ sagði Martens.

Parrott setti höfuðið í hendurnar strax eftir klúðrið og var sýnilega vonsvikinn þegar leiknum lauk.

Þessi 23 ára gamli leikmaður skoraði úr vítaspyrnu fyrir Írland gegn Ungverjalandi í Búdapest áður en hann skoraði þrennu í hinum fræga 3-2 sigri í undankeppni HM í síðasta mánuði, en árangur hans af vítapunktinum með Alkmaar er ekki glæsilegur.

Hann er núna búinn að klúðra þremur vítaspyrnum í röð fyrir félagslið sitt, og þótt hann hafi skorað 19 mörk samtals á tímabilinu fyrir félagslið og landslið, hefur hann aðeins skorað einu sinni í síðustu sex leikjum sínum fyrir AZ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×