Fótbolti

Hjálpaði liði sínu að vinna fyrsta titilinn síðan löngu áður en hann fæddist

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hilmir Rafn Mikaelsson varð norskur meistari á fyrsta tímabili með Viking FK.
Hilmir Rafn Mikaelsson varð norskur meistari á fyrsta tímabili með Viking FK. @viking_fk

Viking varð um helgina Noregsmeistari í fyrsta sinn í 34 ár. Viking velti Bodö/Glimt úr sessi af toppnum og tryggði sér meistaratitilinn á sunnudag eftir spennandi lokaumferð.

Viking gat tryggt sér titilinn með sigri og það tókst með sannfærandi hætti með 5-1 stórsigri á heimavelli gegn Vålerenga.

Þar með endaði Viking í efsta sæti norsku úrvalsdeildarinnar, einu stigi á undan Bodø/Glimt, sem hefur einnig verið upptekið í Meistaradeildinni í haust.

Bodö/Glimt hefur unnið meistaratitilinn síðustu tvö tímabil en Viking hafði ekki unnið titilinn síðan 1991.

Í fyrri hálfleik skoruðu Norðmennirnir Edvin Austbø, Martin Ove Roseth og fyrirliðinn Zlatko Tripic fyrir heimaliðið. Vålerenga skapaði smá spennu fimm mínútum eftir hlé þegar Elias Hagen minnkaði muninn í 1-3. En nær komst útiliðið ekki því að ná stigi. Kristoffer Haugen og Kristoffer Askildsen skoruðu fyrir Viking, sem þar með hafði fimm mismunandi norska markaskorara á blaði.

Bodø/Glimt vann sinn leik 5-0 á heimavelli gegn Fredrikstad.

Íslenski framherjinn Hilmir Rafn Mikaelsson fagnaði því titli á sínu fyrsta tímabili hjá félaginu. Hann sat allan tímann á bekknum um helgina en skoraði tvö mörk í tólf deildarleikjum á tímabilinu.

Hilmir Rafn er fæddur árið 2004 þegar Viking var búið að bíða í þrettán ár eftir titlinum. Síðan hefur bæst við 21 ár en biðin er loksins á enda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×