Fótbolti

Ajax segir það al­gjört hneyksli hvað stuðnings­menn fé­lagsins gerðu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leik Ajax og Groningen á Johan Cruijff Arena var aflýst um helgina en hann verður kláraður án áhorfenda annað kvöld.
Leik Ajax og Groningen á Johan Cruijff Arena var aflýst um helgina en hann verður kláraður án áhorfenda annað kvöld. Getty/Marcel Bonte

Hollenska fótboltafélagið Ajax er allt annað en sátt við eigin stuðningsmenn eftir atburði helgarinnar.

Ajax mun nú rannsaka notkun á blysum sem leiddi til þess að deildarleikur gegn Groningen var stöðvaður á sunnudag. Félagið gagnrýnir stuðningsmennina harðlega.

„Okkur finnst það sem gerðist á leikvanginum í kvöld vera algjört hneyksli. Við biðjum alla sem urðu fyrir áhrifum á einhvern hátt afsökunar. Öryggi áhorfenda og leikmanna var stefnt í hættu. Þetta er óásættanlegt og við fordæmum þennan verknað harðlega,“ segir í tilkynningu frá stjórn félagsins.

Í yfirlýsingunni kemur fram að leitað hafi verið að öllum áhorfendum en að ekki hafi tekist að koma í veg fyrir atvikið.

Samkvæmt nos.nl vildu stuðningsmennirnir heiðra minningu stuðningsmanns sem lést fyrr í mánuðinum en sá var aðeins 29 ára að aldri. Það var gert með gríðarlegu magni af blysum og leikurinn var stöðvaður á sjöttu mínútu.

Eftir fjörutíu mínútur var reynt að hefja leikinn aftur en þá voru strax kveikt fleiri blys og dómarinn flautaði leikinn af fyrir fullt og allt.

Ajax greinir frá því að leikurinn verði kláraður á þriðjudagseftirmiðdegi. Það verður gert fyrir tómum áhorfendapöllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×