Fótbolti

Skildu Ajax-menn eina eftir án stiga á botni Meistara­deildarinnar

Sindri Sverrisson skrifar
Samuel Dahl skoraði fyrra mark Benfica í kvöld og því var vel fagnað.
Samuel Dahl skoraði fyrra mark Benfica í kvöld og því var vel fagnað. Getty/Maruice van Steen

Martröð hollenska stórveldisins Ajax hélt áfram í kvöld þegar liðið tapaði á heimavelli gegn lærisveinum Jose Mourinho í Benfica, 2-0, í Meistaradeild Evrópu í fótbolta. Tveimur fyrstu leikjum kvöldsins var að ljúka.

Ajax er þar með eina liðið af þeim 36 sem eru í Meistaradeildinni sem enn hefur ekki fengið eitt einasta stig, eftir fimm leiki. Liðið hefur raunar bara skorað eitt mark en fengið á sig sextán.

Benfica var einnig stigalaust en er nú búið að landa fyrsta sigrinum.

Sænski bakvörðurinn Samuel Dahl skoraði fyrra mark leiksins strax á 6. mínútu, þegar hann fylgdi á eftir skalla Richard Ríos eftir hornspyrnu. Seinna markið skoraði Leandro Barreiro svo úr skyndisókn í lokin.

Í hinum leiknum sem var að ljúka unnu belgísku meistararnir í Union SG góðan 1-0 útisigur gegn Galatasaray í Tyrklandi, með marki Promise David á 57. mínútu.

Union er því með sex stig eftir fimm leiki en Galatasaray er með níu stig.

Staðan skýrist svo betur í kvöld og á morgun þegar fimmtu umferð lýkur með fjölda leikja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×