Innlent

Sprenging í fíkni­efna­inn­flutningi í gegnum Nor­rænu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Kolbeinn Tumi Daðason les kvöldfréttir í kvöld.
Kolbeinn Tumi Daðason les kvöldfréttir í kvöld. vísir

Stórfelld fíkniefnamál í tengslum við komu Norrænu á Seyðisfirði eru orðin jafn mörg og samanlagður málafjöldi síðustu fimm árin þar á undan. Yfirlögregluþjónn á Austurlandi segir öll málin talin tengjast skipulagri brotastarfsemi. Þróunin sé áhyggjuefni.

Sérfræðimenntaður læknir hefur ekki fengið starfsleyfi í sinni starfsgrein eftir fimm mánaða bið. Hún fái engin svör frá Embætti landlæknis þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. Framkvæmdastjóri lækninga segir vandamál í uppsiglingu enda skortur á sérgreinalæknum.

Og meira úr heilbrigðisgeiranum en mikill læknaskortur er á Sjúkrahúsinu á Akureyri og dæmi eru um að læknar séu á bakvakt í sautján sólarhringa samfleytt. Mikil óánægja ríkir meðal lækna fyrir norðan með stöðuna en sumir þeirra hafa sagt upp störfum. Alma Möller heilbrigðisráðherra ræðir stöðuna í beinni útsendingu. 

Vesturverk stefnir að því að hefja undirbúningsframkvæmdir vegna Hvalárvirkjunar á Ströndum næsta vor eftir að Hæstiréttur hafnaði kröfu virkjunarandstæðinga um að jörðin Drangavík ætti hluta af vatnasviði virkjunarinnar. Fleiri kærumál eru hins vegar í gangi.

Á fimmtudag mega íbúar á Suðaustur- og Austurlandi búast við miklu hvassviðri og snjókomu. Þá er stormi spáð við suðurströnd landsins. Við ræðum við veðurfræðing í beinni útsendingu. 

Þetta og margt fleira í kvöldfréttum á samtengdum rásum Sýnar, Bylgjunnar og Vísis klukkan hálf sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×