Enski boltinn

Moyes kastaði kveðju á vini sína á Ís­landi eftir við­tal við Hjör­var

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Moyes og fjölskylda hans hafa sterk tengsl við Ísland.
David Moyes og fjölskylda hans hafa sterk tengsl við Ísland. sýn sport

David Moyes, knattspyrnustjóri Everton, var léttur í lund þegar Hjörvar Hafliðason ræddi við hann eftir sigurinn á Manchester United í gær.

Þrátt fyrir að vera manni færri í 77 mínútur vann Everton United, 0-1, þökk sé marki Kiernans Dewsbury-Hall í fyrri hálfleik. Þetta var fyrsti sigur Moyes sem stjóri gestaliðs á Old Trafford.

„Það hefur verið mjög erfitt sem stjóri gestaliðsins að koma og vinna United á útivelli í gegnum árin svo þetta var óvænt í dag, sérstaklega eftir að við urðum manni færri, en við verðskulduðum þetta,“ sagði Moyes við Hjörvar.

„Leikmennirnir sýndu mikla þrautseigju og samstöðu og við fengum líka stórkostlegan stuðning hérna.“

Hugsaði um að taka framherjann út af

Moyes gerði ekki skiptingu eftir að Gueye fékk rauða spjaldið en nokkru áður hafði Séamus Coleman meiðst og Jake O'Brien kom inn á í hans stað.

„Við hugsuðum um að breyta og möguleikinn var kannski að taka framherjann út af og setja Iliman [Ndiaye] jafnvel fram og þétta liðið en Thierno Barry gerði mjög vel og leiddi framlínuna vel,“ sagði Moyes.

Kiernan Dewsbury-Hall fagnar marki sínu gegn Manchester United ásamt Iliman Ndiaye.getty/Alex Livesey

„Það var áfall að missa Séamus því þetta var fyrsti leikurinn hans. Hann meiddist á læri og því þurftum við að breyta. Ég er vonsvikinn fyrir hans hönd því hann er svo góður strákur.“

Vill koma Everton aftur í Evrópukeppni

Hjörvar spurði Moyes hvort Everton gæti endað meðal fimm efstu liða ensku úrvalsdeildarinnar og krækt sér í Meistaradeildarsæti.

„Ef þú hefðir sagt það við mig í síðustu viku hefði ég sennilega sagt nei út af liðunum sem eru fyrir ofan okkur en ég ætla að vera jákvæður og vil koma Everton aftur í Evrópukeppni. Ég veit ekki hvort við getum það eða fáum nógu mörg stig. En ég gerði það hjá West Ham. Fyrst björguðum við okkur frá falli og tímabilið þar á eftir komust við í Evrópukeppni,“ sagði Moyes.

Moyes stýrði Everton á árunum 2002-13 og tók svo aftur við liðinu í janúar á þessu ári.getty/James Gill

„Það yrði frábært fyrir stuðningsmennina að komast aftur í Evrópukeppni. Ég vil gera það. En það er mjög erfitt að spila á fimmtudegi og sunnudegi. Við höfum möguleika á meiri endurheimt líkt og Manchester United. Þeir eru heldur ekki í Evrópukeppni.“

Verður að lifa með sögunni og væntingunum

Að lokum spurði Hjörvar Moyes hvort hann hefði samúð með Ruben Amorim, knattspyrnustjóra United. Moyes hefur auðvitað reynslu af því að stýra Rauðu djöflunum en hann tók sem kunnugt er við af Sir Alex Ferguson fyrir tólf árum en entist ekki lengi í starfi á Old Trafford.

„Þegar þú kemur til Manchester United verðurðu að lifa með sögunni og væntingunum. Ég þurfti að gera það. Þetta er sérstakt og frábært félag, kröfurnar eru miklar sem og stuðningurinn og allt þetta hangir á þér.“

Að lokum kastaði Moyes kveðju á alla vini sína á Íslandi en fjölskylda hans hefur sterk tengsl við landið.

Horfa má á viðtalið við Moyes í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

United afþakkaði glóru­lausa gjöf Gueye

Þrátt fyrir að hafa misst Idrissa Gana Gueye af velli með rautt spjald, fyrir að slá liðsfélaga sinn, náðu tíu baráttuglaðir Everton-menn að landa frábærum 1-0 sigri gegn Manchester United á Old Trafford í kvöld, þegar tólftu umferð ensku úrvalsdeildarinnar lauk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×