Enski boltinn

„Salah talar bara þegar hann vantar nýjan samning“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamed Salah hefur ekki skorað eða lagt upp mark í síðustu þremur leikjum Liverpool.
Mohamed Salah hefur ekki skorað eða lagt upp mark í síðustu þremur leikjum Liverpool. getty/Molly Darlington

Jamie Carragher vill að Mohamed Salah gefi kost á sér í viðtöl nú þegar Englandsmeistarar Liverpool eiga í vandræðum.

Salah og félagar töpuðu 0-3 fyrir Nottingham Forest á laugardaginn og hafa tapað sex af síðustu sjö leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.

Carragher er orðinn þreyttur á þögn Salahs og vill að hann stígi fram fyrir skjöldu.

„Eftir leikinn gegn Forest kom Virgil van Dijk í viðtal eins og hann átti að gera sem fyrirliði. Eftir öll þessi töp er það alltaf hann sem kemur fram og talar. Fyrirliðinn ætti að gera það en aðrir leikmenn ættu líka að gera það,“ sagði Carragher.

„Fyrir ári var Salah ekki feiminn að tala um sína stöðu og að félagið hefði ekki boðið honum nýjan samning. Ég heyri Salah bara tala þegar hann er valinn maður leiksins eða vantar nýjan samning. Ég myndi vilja sjá Salah, sem einn af leiðtogum og goðsögnum Liverpool, stíga fram og tala fyrir liðið.“

Eftir frábært tímabil í fyrra þar sem hann var bæði marka- og stoðsendingahæstur í ensku úrvalsdeildinni hefur Salah ekki náð sömu hæðum í vetur. Wayne Rooney, markahæsti leikmaður í sögu Manchester United, gekk meira að segja svo langt að hvetja Arne Slot, knattspyrnustjóra Liverpool, til að setja Salah á varamannabekkinn.

Liverpool er í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með átján stig eftir tólf umferðir.

Liverpool mætir PSV Eindhoven á Anfield í Meistaradeild Evrópu annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×