Neytendur

Hafði betur eftir að hafa fengið of stór gler­augu í hendurnar

Atli Ísleifsson skrifar
Viðskiptavinurinn, kona, óskaði eftir umgjörð í stærð 48, en sú stærð var ekki til á lager og var því ákveðið að panta hana sérstaklega. Að sögn fulltrúa verslunarinnar reyndist sú stærð ekki fáanleg og hafi því verið pöntuð umgjörð í stærð 50. Myndin er úr safni.
Viðskiptavinurinn, kona, óskaði eftir umgjörð í stærð 48, en sú stærð var ekki til á lager og var því ákveðið að panta hana sérstaklega. Að sögn fulltrúa verslunarinnar reyndist sú stærð ekki fáanleg og hafi því verið pöntuð umgjörð í stærð 50. Myndin er úr safni. Getty

Viðskiptavinur gleraugnaverslunar mun fá gleraugu endurgreidd eftir stapp við verslun sem hafði pantað gleraugun í stærri umgjörð en óskað hafði verið eftir. Verslunin skal endurgreiða viðskiptavininum samtals 165 þúsund krónur, enda hafi viðskiptahættir verslunarinnar ekki verið fullnægjandi í skilningi laga um neytendakaup.

Þetta er niðurstaða kærunefndar vöru- og þjónustukaupa. Í úrskurði nefndarinnar eru málsatvik rakin. Þar segir að í nóvember 2023 hafi viðskiptavinurinn pantað gleraugu með styrk og greitt fyrir það rúmar 165 þúsund krónur fyrir umgjörð og gler með styrk.

Bað um í stærð 48, fékk í stærð 50

Viðskiptavinurinn, kona, óskaði í versluninni eftir ákveðinni umgjörð í stærð 48, en sú stærð var ekki til á lager og var því ákveðið að panta hana sérstaklega. Að sögn fulltrúa verslunarinnar reyndist sú stærð ekki fáanleg og hafi því verið pöntuð umgjörð í stærð 50. Í janúar 2024 sótti viðskiptavinurinn gleraugun í versluninni og tók þá eftir að umgjörðin var ekki í þeirri stærð sem hún hafði beðið um.

Konan sagðist ekki hafa fengið vitneskju um að önnur stærð hefði verið pöntuð og óskaði hún degi síðar eftir afhendingu í réttri stærð. Illa hafi gengið að fá svör frá fulltrúum verslunarinnar og mætti konan ítrekað í verslanir fyrirtækisins og átti frumkvæði að samskiptum.

Tafir vegna afstöðu viðskiptavinarins

Forsvarsmenn verslunarinnar bentu á að konunni hafi verið boðið að velja aðra umgjörð í réttri stærð en hún ekki fundið neitt við sitt hæfi. „Eigandi verslunarinnar hafi reynt að leysa úr málinu en tafir orðið bæði vegna viðbragða frá birgjum og afstöðu [konunnar] sjálfrar,“ segir í úrskurðinum.

Við meðferð málsins sögðu forsvarsmenn verslunarinnar að konunni hefði verið boðin lausn frá upphafi, meðal annars með því að nota glerin í aðra umgjörð eða kaupa nýja umgjörð í annarri verslun sem yrði greidd af varnaraðila. Þá var bent á að rétt gler hafi verið afhent en þau hafi verið sérpöntuð eftir sjón sóknaraðila. Síðar skilaði umgjörð sér í réttri stærð og hafði konunni verið boðið að koma í mælingu og fá ný gler sett í. Henni hafði sömuleiðis verið boðið að fá endurgreiddan kostnað við umgjörðina og að glerin yrðu sett í aðra umgjörð. Konan vísaði hins vegar þá til þess að langur tími væri liðinn frá afhendingu og krafðist hún fullrar endurgreiðslu kaupverðs úr hendi verslunarinnar.

Ekki fullnægjandi úrbætur

Kærunefndin benti á að úrbætur þær sem verslunin hafði boðið konunni gætu ekki talist fullnægjandi í skilningi laga. Boð verslunarinnar um að konan velji sér aðra umgjörð geti ekki talist sambærilegt því að afhenda þá vöru sem upphaflega var pöntuð og samið um, enda geti val á umgjörð skipt kaupanda verulegu máli. Þá verður ekki talið fullnægjandi að endurgreiða einungis umgjörðina en ekki glerin.

„Sóknaraðili keypti bæði umgjörð og gler sem heildstæða vöru og mátti með réttu gera ráð fyrir að fá afhent gleraugu í samræmi við pöntun. Verður að telja að réttur varnaraðila til að bæta úr gallanum eða afhenda nýja vöru sé niður fallinn vegna óhagræðis sóknaraðila og þess tíma sem hefur liðið frá kaupunum,“ segir í úrskurðinum.


Tengdar fréttir

Fær taugaveiklaðan hund endurgreiddan

Hundaræktendum hefur verið gert að endurgreiða konu 380 þúsund krónur vegna kaupa hennar á árs gömlum hundi, sem var sagður húsvanur. Konan skilaði hundinum þar sem hún taldi hann haldinn taugaveiklun.

Situr uppi með sófann með „slaka stíf­leikann“

Viðskiptavinur sem kvartaði yfir slökum stífleika í sætispúðum eftir kaup á sófa situr uppi með sófann eftir að kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hafnaði kröfu hans um endurgreiðslu. Hann sendi kvörtunarpósta á verslunina tvo nýársdaga í röð.

Situr uppi með sófann með „slaka stíf­leikann“

Viðskiptavinur sem kvartaði yfir slökum stífleika í sætispúðum eftir kaup á sófa situr uppi með sófann eftir að kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hafnaði kröfu hans um endurgreiðslu. Hann sendi kvörtunarpósta á verslunina tvo nýársdaga í röð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×