Fótbolti

Rekin eftir að hafa orðið valdur að ó­gildingu Maradona-réttarhaldanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Julieta Makintach tók þátt í að gera heimildamynd um réttarhöld sem hún tók sjálf þátt í.
Julieta Makintach tók þátt í að gera heimildamynd um réttarhöld sem hún tók sjálf þátt í. epa/Juan Ignacio Roncoroni

Argentínskur dómari hefur verið leystur frá störfum eftir að þátttaka hennar í heimildamynd varð til þess að réttarhöldin yfir heilbrigðisstarfsfólkinu sem annaðist Diego Maradona síðustu ævidaga hans voru ógild.

Sjö læknar og hjúkrunarfræðingar voru ákærðir fyrir að bera ábyrgð á dauða Maradona vegna vanrækslu í starfi. Hann lést af völdum hjartaáfalls í nóvember 2020, skömmu eftir að hafa gengist undir aðgerð vegna blóðtappa í heila.

Einn þriggja dómara í málinu, hin 48 ára Julieta Makintach, sagði sig frá því vegna þátttöku hennar í heimildamynd um málið. Hinir tveir dómararnir ákváðu í kjölfarið að ógilda málið.

Makintach hefur nú verið rekin af sérstakri nefnd dómara, lögmanna og fleiri aðila og má ekki gegna neinu embætti í dómskerfinu framar.

Tekin voru viðtöl við Makintach fyrir heimildamyndina þótt hún reyndi að halda öðru fram. Hún er einnig sökuð um að hafa veitt kvikmyndagerðarfólkinu aðgengi að réttarsalnum tveimur dögum fyrir réttarhöldin sem hún hafði ekki heimild til að gera.

Hvorki aðrir dómarar, fjölskylda Maradonas eða sakborningar voru meðvitaðir um að Makintach hefði leyft kvikmyndagerðarfólkinu að taka upp í réttarsalnum.

Maradona fannst látinn á heimili sínu 25. nóvember 2020. Hann var sextugur þegar hann lést. Saksóknarar telja að ummönnun argentínska fótboltagoðsins hafi verið verulega ábótavant og átt þátt í andláti hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×