Innlent

Veðmála­fyrir­tækin geti eflt íþrótta­félög til muna

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sigurður G. Guðjónsson lögmaður gætir hagsmuna Betsson á Íslandi.
Sigurður G. Guðjónsson lögmaður gætir hagsmuna Betsson á Íslandi. Vísir/Lýður Valberg

Lögmaður segir skjóta skökku við að erlendar veðmálasíður fái ekki að starfa hér á landi. Þær gætu eflt íþróttafélög landsins til muna.

Í gær gaf Happdrætti Háskóla Íslands út skýrslu um fjárhættuspilamarkaðinn í alþjóðlegum samanburði. Forstjóri Happdrættisins segir það mikilvægt að breyta úreltum lögum sem fyrst þar sem erlendar síður starfi ólöglega hér á landi og allt að fjörutíu milljarðar króna streymi úr landi til þessara síðna á hverju ári.

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður, gætir hagsmuna erlendrar veðmálasíðu, Betsson, og segir skrítið að HHÍ skuli láta vinna þessa skýrslu þegar niðurstöður margra annarra rannsókna séu til staðar.

„Þeir eru auðvitað að undirbúa einhvern lobbýisma gagnvart Alþingi og dómsmálaráðherra til þess að reyna að halda óbreyttu ástandi í heimi sem er síbreytilegur. Allt frá 1995 hafa stjórnvöld á Íslandi vitað að við erum tengd internetinu og þá var verið að fjalla um það í skýrslum hvort það væri hægt að sporna við erlendri veðmálastarfsemi á Íslandi en það er ekki hægt vegna þess að við höfum netið,“ segir Sigurður. 

Ísland tilheyri Evrópska efnahagssvæðinu og því eigi að vera frelsi í viðskiptum milli ríkja.

„Betsson vill fá að reka sína starfsemi samkvæmt reglum og leyfum á Íslandi. Það er ekkert ólögmæt í starfsemi Betsson,“ segir Sigurður. 

Þannig þegar er talað um að erlendu fyrirtækin, eins og Betsson, vilji óbreytt ástand, það er ekki rétt?

„Þau vilja ekkert óbreytt ástand. Þau vilja fá að keppa á jafnréttisgrundvelli á íslenskum markaði. Geta auglýst sig og þannig stutt við íslenska fjölmiðla og íslensk íþróttafélög með auglýsingakaupum og kannski öðrum styrkjum. En þeir vilja ekki óbreytt ástand þannig að það sé verið að úthrópa fyrirtæki sem er skráð í kauphöllum víða um Evrópu sem einhverja ólögmæta starfsemi. Einhverja sjóræningjastarfsemi, sem það er ekki,“ segir Sigurður. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×