Enski boltinn

Nagelsmann um Wirtz: Liðsfélagarnir í Liverpool gætu nú að­eins hjálpað honum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Florian Wirtz hefur upplifað erfiða tíma hjá Liverpool það sem af er á hans fyrsta tímabili á Anfield.
Florian Wirtz hefur upplifað erfiða tíma hjá Liverpool það sem af er á hans fyrsta tímabili á Anfield. Getty/Shaun Brooks

Liverpool eyddi metupphæð í þýska leikmanninn Florian Wirtz í sumar en það hefur ekki gengið vel hjá þeim þýska hingað til í enska boltanum. Nú er hann kominn til móts við þýska landsliðið og landsliðsþjálfarinn hefur tjáð sig um stöðuna sem er komin upp hjá Liverpool.

Julian Nagelsmann, landsliðsþjálfari Þýskalands, gaf það í skyn í viðtali að sökin liggi líka hjá hinum leikmönnum Liverpool. Florian Wirtz hefur spilað ellefu leiki í ensku úrvalsdeildinni, samtals í 693 mínútur, án þess að skora eða leggja upp mark.

„Það er ljóst að Liverpool-liðið hefur ekki sama stöðugleika og í fyrra. Liðsfélagarnir í Liverpool gætu nú aðeins hjálpað honum með því að nýta eitthvað af þessum færum sem hann er að búa til fyrir þá,“ sagði Julian Nagelsmann.

Ekki búinn að gefa stoðsendingu

Wirtz á vissulega eftir að gefa stoðsendingu í ensku úrvalsdeildinni en hefur búið til sextán marktækifæri fyrir liðið í þessum ellefu leikjum.

Liverpool vann fimm fyrstu leiki sína en síðan hafa fimm af síðustu sex leikjum tapast. Wirtz var fastamaður framan af en hefur verið inn og út úr liðinu í síðustu leikjum.

„Staðan í heild sinni gerir Florian ekki auðvelt fyrir heldur. Það er mun erfiðara að komast inn í liðið núna. Að lokum er heildarstaðan sú að hann þarf bara aðeins meiri tíma, sem er eðlilegt,“ sagði Nagelsmann. Wirtz hefur reynt tólf skot og er með 1,30 xG, meintum mörkum án þess að finna leiðina í netið.

Hreinsað hugann hér

Wirtz á líka enn eftir að skora fyrir Liverpool í öllum keppnum en gaf tvær stoðsendingar í Meistaradeildinni og eina stoðsendingu í leiknum um Samfélagskjöldinn.

„Við vitum öll hvers hann er megnugur og það er fullkomlega eðlilegt að leikmaður á hans aldri gangi í gegnum smá lægð í formi. Við getum ekki búist við því að hann spili á sama getustigi í þrjú ár í röð. Þess í stað þurfum við að styðja hann svo hann geti hreinsað hugann hér,“ sagði Nagelsmann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×