Fótbolti

Sjáðu Messi skjóta Inter Miami á­fram í fyrsta sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi skoraði tvö mörk og lagði upp eitt þegar Inter Miami rúllaði yfir Nashville.
Lionel Messi skoraði tvö mörk og lagði upp eitt þegar Inter Miami rúllaði yfir Nashville. epa/CRISTOBAL HERRERA-ULASHKEVICH

Lionel Messi sýndi allar sínar bestu hliðar þegar Inter Miami sigraði Nashville, 4-0. Þetta var í fyrsta sinn í sögunni sem liðið vinnur einvígi í úrslitakeppni MLS-deildarinnar.

Staðan í einvígi Inter Miami og Nashville var jöfn, 1-1, fyrir leikinn í nótt. Ljóst var að sigurvegarinn myndi tryggja sér sæti í næstu umferð.

Messi var í miklu stuði í gær og kom Inter Miami yfir á 10. mínútu með skoti fyrir utan vítateig.

Sex mínútum fyrir hálfleik tvöfaldaði Messi forskot Inter Miami. Mateo Silvetti komst þá einn í gegnum vörn Nashville en var óeigingjarn og lagði boltann til hliðar á Messi sem skoraði.

Tadeo Allendi bætti svo tveimur mörkum við í seinni hálfleik. Messi lagði það seinna upp og kom því með beinum hætti að þremur af fjórum mörkum Inter Miami í leiknum.

Allt það helsta úr leiknum má sjá hér fyrir ofan.

Messi skoraði samtals fimm mörk í leikjunum þremur gegn Nashville og hefur alls skorað tólf mörk í sjö leikjum gegn liðinu síðan hann kom til Inter Miami fyrir rúmum tveimur árum.

Í næstu umferð, undanúrslitum Austurdeildarinnar, mætir Inter Miami Cincinatti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×