Fótbolti

Parma nældi í stig gegn toppliði AC Milan

Siggeir Ævarsson skrifar
Adrian Bernabe fagnar marki sínu í kvöld
Adrian Bernabe fagnar marki sínu í kvöld EPA/Lorenzo Cattani

Eftir þrjú markalaus jafntefli í fyrstu þremur leikjum dagsins í Seríu A litu fjögur mörk dagsins ljós í viðureign Parma og AC Milan.

Parma hefur verið í miklu basli í upphafi móts og það blés ekki byrlega í upphafi leiks í kvöld þegar liðið tók á móti toppliði AC Milan en gestirnir komust í 0-2 á fyrstu 25 mínútum leiksins. 

Adrián Bernabé minnkaði muninn í uppbótartíma fyrri hálfleiks en markið virðist hafa blásið heimamönnum byr í brjóst sem voru afar sprækir fyrri hluta seinni hálfleiks og uppskáru jöfnunarmark á 62. mínútu.

Gestirnir frá Mílanó reyndu hvað þeir gátu að tryggja sér sigurinn eftir markið en færin létu á sér standa og 2-2 jafntefli niðurstaðan.

Mikilvægt stig í hús fyrir Parma sem getur sogast niður í fallsæti á morgun ef Genoa vinnur botnlið Fiorentina. Að sama skapi getur AC Milan fallið niður í 4. sæti af toppnum ef úrslit morgundagsins verða þeim í óhag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×