Enski boltinn

Dæmdur sekur vegna sex við­bjóðs­legra færslna

Sindri Sverrisson skrifar
Joey Barton mætti með bros á vör fyrir rétt í vikunni.
Joey Barton mætti með bros á vör fyrir rétt í vikunni. Getty/Peter Byrne

Fótboltamaðurinn fyrrverandi Joey Barton hefur verið dæmdur sekur fyrir „gróflega móðgandi“ skrif á samfélagsmiðlum. Skrifin beindust að fjölmiðlafólki.

Barton, sem er 43 ára, var fundinn sekur í sex ákæruliðum. Skrifin beindust að útvarpsþáttastjórnandanum Jeremy Vine og sjónvarpskonunum Lucy Ward og Eni Aluko.

Barton líkti til að mynda Aluko og Ward við raðmorðingjaparið Fred og Rose West í skrifum sínum, og kallaði Vine „hjólaníðing“ [e. Bike Nonce] sem héldi hlífiskildi yfir barnaníðingum.

Kviðdómendur við Liverpool Crown Court féllust á rök saksóknara um að Barton hefði „farið yfir mörkin milli tjáningarfrelsis og glæps“ í sex ákæruliðum.

Barton, sem á sínum tíma var leikmaður Manchester City, QPR og Newcastle, var hins vegar sýknaður af sex öðrum ákæruliðum af svipuðum toga.

Barton, sem er með 2,7 milljónir fylgjenda á samfélagsmiðlinum X, bar fyrir sig að hann hefði aðeins verið að beita svörtum og heimskulegum húmor. Hann hefði aldrei ætlað sér að gefa í skyn að Vine væri barnaníðingur, þrátt fyrir að skrifa til að mynda að fólk ætti að hringja í neyðarlínuna ef það sæi hann nálægt barnaskóla.

Það kemur í ljós 8. desember hvaða refsingu Barton mun hljóta en dómari varaði hann við því að það væri mjög heimskulegt að skrifa um málið á samfélagsmiðlum fram að því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×