Enski boltinn

Telja United mun lík­legra til að enda í sjöunda en öðru sæti

Sindri Sverrisson skrifar
Amad Diallo reddaði Manchester United stigi með frábæru jöfnunarmarki gegn Nottingham Forest.
Amad Diallo reddaði Manchester United stigi með frábæru jöfnunarmarki gegn Nottingham Forest. Getty/Alex Dodd

Um tíma á laugardaginn sat Manchester United í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, í lifandi stigatöflu deildarinnar, en eftir leiki laugardagsins var liðið í 7. sæti. Það er mun líklegri niðurstaða fyrir United en 2. sæti, að mati sérfræðinga Sunnudagsmessunnar á Sýn Sport.

Kjartan Atli Kjartansson skaut þessari spurningu á nafna sinn Kjartan Henry Finnbogason og Albert Brynjar Ingason, í þætti gærdagsins, og þeir voru ekki í nokkrum vafa um svarið. Hér að neðan má sjá brot úr þættinum.

Klippa: Er Man. Utd líklegra til að enda í 2. eða 7. sæti?

„United er nær sjöunda sæti. Það má ekki fara fram úr sér. Þetta er langt frá því að vera orðið eitthvað hrikalega sannfærandi,“ sagði Kjartan Henry og bætti við:

„Eins og við höfum rætt varðandi Sesko, ef þú ert ekki með markaskorara inni í teig þá ertu aldrei að fara að vera mjög nálægt 2. sætinu. Það eru lið þarna fyrir ofan sem eru komin töluvert lengra.“

Segði þetta um öll lið fyrir utan City og Liverpool

Eftir 2-2 jafnteflið við Nottingham Forest og aðra leiki helgarinnar er United raunar komið niður í 8. sæti, með 17 stig, en liðið er jafnt Tottenham, Chelsea og Sunderland að stigum en með verstu markatöluna (+1). Aðeins tvö stig eru upp í Manchester City í 2. sæti en Arsenal er efst með 25 stig, eftir tíu umferðir.

Albert er stuðningsmaður Arsenal og hann hefur engar áhyggjur af því að United muni veita Arsenal einhverja keppni um titilinn:

„Nei, ég geri það ekki. Ég myndi segja þetta um öll lið fyrir utan City og Liverpool. Chelsea, Tottenham og United eru öll nær 7. sæti og það er bara pakki af liðum þar,“ sagði Albert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×